Selur Þjóðverjum ástina á Íslandi

Þau Christian og Anke Wiesner voru gefin saman við Seljalandsfoss …
Þau Christian og Anke Wiesner voru gefin saman við Seljalandsfoss í gær. Kristín Þórðardóttir, fulltrúi sýslumanns á Hvolsfelli gaf brúðhjónin saman. ljósmynd/Odd Stefan

„Ég er reyndar sjálfur ógiftur, er í óvígðri sambúð,“ segir ferðamálafrömuðurinn Pétur Óskarsson, annar eigandi Kötlu Travel, sem flytur inn Þjóðverja í giftingarhugleiðingum.

„Þetta byrjaði þannig að við fengum senda skemmtilega mynd af pari sem gifti sig á Vatnajökli. Við notuðum myndina í einum bæklinga okkar og þá byrjaði boltinn að rúlla,“ segir Pétur, en Katla Travel er með skrifstofu í München.

„Við höfum helst verið í þessum sérhæfðari og dýrari ferðum, en kúnnahópur okkar er aðallega Þjóðverjar, Svisslendingar og Austurríkismenn sem kaupa ferðir til Íslands, Færeyja eða Grænlands. Þetta er oft fólk sem þegar hefur fallið fyrir Íslandi og/eða er að láta drauminn um Íslandsför rætast.

Það er auðvitað frábær minning að hafa gift sig í náttúru Íslands og reynum við að vanda vel til verksins, því þetta má ekki verða eins og hver önnur vara í búðarhillunni, heldur einstök upplifun,“ segir Pétur, en meðal giftingarstaða eru Saurbæjarkirkja á Hvalfjarðarströnd, Hraunfossar, Þingvellir, Búðakirkja á Snæfellsnesi og Seljalandsfoss, þar sem síðasta giftingin fór fram í gær.

„Eftirspurnin er mikil og þetta heldur því áfram næsta sumar,“ segir Pétur, sem ætti að hafa ágætis hugmynd um hvernig hann vill hafa eigið brúðkaup, komi til þess.

mbl.is