Unnið að gerð frumvarps um skatt á olíufélög

Drekasvæðið.
Drekasvæðið. mbl.is/KG

Á vegum fjármálaráðuneytisins er unnið að gerð lagafrumvarps um skattlagningu olíuleitar og olíuvinnslu innan íslenskrar efnahagslögsögu. Fyrirhugað er að frumvarpið verði lagt fram á komandi haustþingi Alþingis en í janúar 2009 er stefnt að því að bjóða út leyfi til leitar, rannsóknar og vinnslu á olíu og gasi á sk. Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Olíuleitarfyrirtæki greina á milli ríkja eftir því hversu vel kannaðar olíulindir þeirra eru, hversu auðvelt er að nálgast þær, hvað vitað er um jarðlög og hver skattheimta ríkjanna er. Til að laða hingað til lands olíufyrirtæki þarf skattlagning þeirra að vera vel samkeppnishæf við önnur ríki þar sem aðstæður til leitar og vinnslu á Drekasvæðinu eru almennt séð erfiðar.

„Við frumvarpsgerðina hefur því verið haft að leiðarljósi að ríkissjóði verði tryggð ásættanleg hlutdeild af þeim hagnaði sem fellur til vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind í eigu þjóðarinnar og jafnframt að Ísland verði í skattalegu tilliti samkeppnishæft við nágrannaríki okkar sem eru með samskonar starfsemi, þ.e. Noreg, Færeyjar, Kanada, Írland og Grænland. Umrædd nágrannaríki okkar hafa valið ólíkar leiðir við skattlagningu olíuleitar og vinnslu.

Þannig er í Noregi lagður sérstakur 50% kolvetnisskattur á hagnað vegna olíuvinnslu, til viðbótar við almennan tekjuskatt fyrirtækja. Á móti kemur að hægt er að draga frá skattstofni allan kostnað sem fellur til við öflun olíunnar, auk ívilnandi reglna um uppsafnað tap og afskriftir.

Kostur slíkrar skattlagningar er að hún er einföld en ókostur hennar er að langur tími getur liðið frá því vinnsla olíu hefst þar til viðkomandi fyrirtæki greiðir skatt af hagnaðinum, auk þess sem endurgreiddur er hluti kostnaðar vegna olíuleitar jafnvel þó að engin olía finnist.

Hafa ber í huga að jarðlög í Noregi hafa verið könnuð gríðarlega mikið og mun meira en á Drekasvæðinu, auk þess sem Drekasvæðið er mjög langt frá landi ólíkt norsku leitar- og vinnslusvæðunum en það hefur áhrif á hvaða fyrirkomulag skattlagningar er heppilegt, m.a. út frá stofnkostnaði og áhættu," að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Í Færeyjum og Kanada er löggjöf á þessu sviði samsett af þrenns konar sköttum, þ.e. almennum fyrirtækjaskatti, framleiðslugjaldi og sérstökum kolvetnisskatti. Er framleiðslugjaldið stighækkandi samhliða aukinni framleiðslu en kolvetnisskatturinn kemur í stað þess þegar tekjur af framleiðslunni eru orðnar hærri en rekstrarkostnaður. Kostir slíkrar skattlagningar felast í því að tekjur ríkissjóðs koma inn þegar í upphafi olíuvinnslunnar og eru stöðugar, auk þess sem ekki þarf að endurgreiða kostnað ef engin olía finnst.

Á móti kemur að skatthlutfall kolvetnisskattsins er lægra en í Noregi enda dreifist skattlagningin á lengra tímabil. Á Írlandi er einvörðungu almennur fyrirtækjaskattur á þessa starfsemi en skatthlutfallið sjálft er þó tvöfalt hærra en almenna skatthlutfallið eða 25%.

Slík skattlagning er einföld en nær tæpast því markmiði að tryggja ásættanlega hlutdeild í takmarkaðri auðlind, samkvæmt vefritinu.

Á ríkisstjórnarfundi í júlí sl. var samþykkt tillaga fjármálaráðherra í þá veru að frumvarp til löggjafar um skattlagningu á þessu sviði verði grundvallað í fyrsta lagi á almennum fyrirtækjaskatti, í öðru lagi á stighækkandi framleiðslugjaldi og í þriðja lagi á stighækkandi kolvetnisskatti sem komi í stað framleiðslugjalds þegar tekjur af framleiðslunni eru orðnar hærri en rekstrarkostnaður. Er það talið skynsamlegasta nálgunin út frá ofangreindum markmiðum og aðstæðum á Drekasvæðinu, að því er segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert