Núverandi stjórnarsamstarf forsenda breytinga á sjúkratryggingum

Geir H. Haarde á fundi í Valhöll í gær.
Geir H. Haarde á fundi í Valhöll í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll í gær, að hann teldi að ekki hefði verið hægt að koma breytingum á lögum um sjúkratryggingar í gegn í annarskonar stjórnarsamstarfi en því sem nú er milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. 

Geir sagði, að frumvarpið hefði það í för með sér, að greint væri á milli ríkisins sem kaupanda og seljanda í heilbrigðisþjónustu eins og sjálfstæðismenn hefðu lengi talað um og eins og samið hefði verið um við Framsóknarflokkinn í ríkisstjórnarsáttmálanum 1999 en ekkert varð úr.

Geir sagði að sjúkratryggingastofnunin muni kaupa nauðsynlega þjónustu frá opinberum stofnunum og einkaaðilum eftir því sem hagstæðast væri hverju sinni. Þetta nýja fyrirkomulag muni skila sér í betri þjónustu fyrir sjúklinga en kostnaðurinn myndi eftir sem áður verða greiddur úr ríkissjóði.

„Sívaxandi kostnaður hefði að óbreyttu sligað heilbrigðiskerfið og dregið úr getu þess til að sinna þeirri þjónustu sem við eðlilega gerum kröfu um hér á Íslandi. Kerfi sem ekki stendur undir sér getur ekki staðið undir nafni sem besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Þær breytingar sem nú hafa verið innleiddar undir forustu heilbrigðisráðherra, munu stuðla að því að við munum geta haldið áfram að bæta þjónustuna og tryggja um leið bestu nýtingu þeirra miklu fjármuna, sem varið er til þessara mikilvægu mála," sagði Geir.

Hann sagði að eins og með önnur framfaramál hefðu Vinstri grænir verið málinu mjög andsnúnir og þeir hefðu ítrekað snúið út úr því og m.a. kallað einkarekstur einkavæðingu.

„Það er kannski ekki við öðru að búast þegar ónefndir þingmenn eyða meiri tíma í myndvinnsluæfingar á netinu en málefnalegan undirbúning. Auðvitað var það viðkomandi þingmanni til skammar hvernig hann tók heilbrigðisráðherra og, eins og krakkarnir segja, „fótósjoppaði„ hann inn á mynd á Gaddafi Líbýuforseta," sagði Geir.

Hann var með þessu að vísa til Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns VG, sem birti slíka mynd á heimasíðu sinni nýlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka