Íbúar í Seljahverfi lýsa áhyggjum af innbrotum

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Fjöldi íbúa kvaddi sér hljóðs á íbúafundinum með lögreglunni í Ölduselsskóla í gærkvöldi.

Maður einn greindi frá því að hjá honum hefði verið brotist inn milli jóla og nýárs í fyrra. Þjófarnir náðust á gamlársdag en var sleppt sama dag. Næstu daga héldu þeir áfram að svíkja út fé með hjálp skilríkja sem þeir höfðu stolið í innbrotinu.

Hann kvartaði yfir því að lögreglan skyldi ekki hafa varað við mögulegum fjársvikum með skilríkjunum. Þá fannst honum samstarf deilda lögreglunnar vera lítið og hafði hann þurft að endurtaka sögu sína hvað eftir annað við starfsmenn deildanna. Ekki hafði hann heldur fengið upplýsingar um gang málsins.

Inn á heimili annars manns var brotist fyrir tíu dögum. Hann sagði að samstarf íbúa og lögreglu hefði ekki gengið vel í því tilviki. Til þjófanna sást og var þeim lýst fyrir lögreglu, en tilkynningin virtist hafa misfarist. Þessi maður sagði það valda miklu tilfinningalegu áfall fyrir fjölskyldu að verða fyrir innbroti. Lögreglan þurfi að gera sér grein fyrir því áfalli sem fólk verður fyrir. Hann kvaðst ekki gera sér neinar vonir um að málið yrði upplýst.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri sagði lögreglumenn almennt vel meðvitaða um að það að verða fyrir innbroti geti haft sálrænar afleiðingar. Lögreglan bjóði aðstoð hjá hverfisstöðinni í fræðslu- og forvarnaskyni. Eins geti hún leiðbeint fólki til sérfræðinga. Þá sagði hann að fólk ætti að fá upplýsingar um lyktir sinna mála.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »