Oftar fullt í ár en í fyrra

Frá Litla Hrauni
Frá Litla Hrauni mbl.is/Brynjar Gauti

Ítrekað hefur komið fyrir á undanförnum mánuðum að Fangelsismálastofnun hefur ekki getað tekið á móti gæsluvarðhaldsföngum í einangrun, þar sem allir einangrunarklefar hafa verið í notkun. Hefur því verið gripið til þess neyðarúrræðis að vista fanga í fangageymslum lögreglustöðva. Komi til fleiri gæsluvarðhaldsúrskurða, s.s. í dag má gera ráð fyrir að því úrræði verði beitt að nýju.

Sautján einstaklingar sæta gæsluvarðhaldi um þessar mundir. Af þeim eru sjö í einangrun vegna rannsóknarhagsmuna. Fangelsismálastofnun hefur yfir að ráða átta einangrunarklefum, og voru þeir allir í notkun í gær. Einangrunarklefarnir eru einnig notaðir til að refsa afplánunarföngum sem brotið hafa af sér innan veggja fangelsisins, eða fylgjast sérstaklega með föngum sem taldir eru hættulegir sjálfum sér.

„Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum á þessu ári,“ segir Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, spurður hvort komið hafi upp tilvik þar sem vísa hafi þurft gæsluvarðhaldsföngum frá. „En það geta auðvitað liðið margar vikur og mánuðir á milli.“

Erlendur segir að ef upp kæmi alvarlegt mál núna þar sem nokkrir þyrftu að sæta einangrun væri ekki hægt að verða við því. Hann segir erfitt að búa við þessar aðstæður en óljóst er hvenær nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi verður tekið í notkun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert