Rannsókn Hafskipsmáls gagnrýnd í nýrri bók

Forsíða bókarinnar.
Forsíða bókarinnar.

Rannsókn svonefnds Hafskipsmáls er harðlega gagnrýnd í nýrri bók, Afdrif Hafskips – í boði hins opinbera, sem komin er út. Höfundurinn, Stefán Gunnar Sveinsson sagnfræðingur, segir m.a. að rannsóknin hafi einkennst af fyrirfram gefnum skoðunum og mistökum sem stafi af þeim. Þegar loks var komist til botns í málinu hafi nær ekkert staðið eftir af upphaflegum ásökunum.

Stefán Gunnar segir, að svo virðist sem reitt hafi verið of hátt til höggs þegar til rannsóknar Hafskipsmálsins kom. Gríðarlegir annmarkar hafi verið á allri rannsókn málsins, þar til í Sakadómi Reykjavíkur hafi loks verið farið að grafast fyrir um hið sanna í málinu. Stóra svindlið, sem þótti sannað í fjölmiðum, hafi reynst markleysa ein. Útvegsbankinn var ekki mergsoginn til að halda úti glæsilífi Hafskipsmanna. Enginn var vísvitandi blekktur. Útvegsbankinn dæmdi ekki fjármunum í Hafskip til að halda fyrirtækinu á lífi heldur stóð bankinn í björgunaraðgerðum, m.a. til að bjarga eiginfjárstöðu sinni. 

Í bókinni eru fjölmiðlar og stjórnmálamenn gagnrýndir fyrir framgöngu sína í málinu. Er m.a. fullyrt, að Jón Baldvin Hannibalsson hafi á Alþingi í nóvember 1985 vísað til upplýsinga, sem fengnar voru með brotum á bankaleynd. Þannig hafi hann teflt í tvísýnu viðkvæmum viðræðum, sem þá áttu sér stað um framtíð Hafskips.

Þá hefði Ólafur Ragnar Grímsson borið olíu á eldinn með þingræðu í desember 1985 þar sem forsvarsmenn Hafskips voru þjófkenndir með ýmsum hætti og látið liggja að því, að almenningur í landinu þyrfti að greiða upp undir milljarð króna til að taka skellinn af óþægilegum lánveitingum Útvegsbankans.  

„Helst má lýsa málatilbúnaði sumra alþingismanna með þeim hætti að Hafskip hafi verið eins konar „ryksuga" á almannafé úr Útvegsbankanum og Hafskipsmenn hafi veitt þeim fjármunum ótæpilega í „hliðarfyrirtæki, skúffufyrirtæki og platfyrirtæki". Ekki er fjarri lagi, að umræðan á Alþingi 10. desember hafi átt einna stærstan þátt í að skapa neikvætt andrúmsloft í garð Hafskipsmanna. Þá hlýtur að teljast athyglisvert að forsætisráðherra landsins skuli hafa rætt við skiptaráðendur á þriðja degi eftir að Hafskip var tekið til gjaldþrotaskipta og tekið af þeim loforð um að rannsókn skiptaráðenda yrði hraðað. Það loforð var svo áréttað fáum dögum síðar á fundi viðskiptanefndar Alþingis," segir í bókinni. Forsætisráðherra á þessum tíma var Steingrímur Hermannsson. 

Stefán Gunnar Stefánsson er fæddur árið 1981. Hann útskrifaðist með BA gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA gráðu frá LSE í Lundúnum árið 2006.

Fram kemur í formála bókarinnar, að þrír fyrrverandi stjórnendur Hafskips, þeir Björgólfur Guðmundsson, Páll Bragi Kristjónsson og Ragnar Kjartansson, hafi beðið Stefán Gunnar að taka saman yfirlit um Hafskipsmálið og rekja bæði viðskiptalega og pólitíska framvindu málsins og rifja upp þátt fjölmiðla. Segir Stefán Gunnar, að lögð hafi verið rík áhersla á það við hann, að hann ynni málið með hlutlægum hætti og þeim aðferðum, sem hann hefði vanist í sagnfræðinámi sínu. 

Hann segist engin samskipti hafa átt við verkbeiðendurna utan þau sem snéru að öflun upplýsinga og niðurstöður bókarinnar séu hans eigin. Hins vegar segist hann hafa ákveðnar skoðanir á viðfangsefninu sem hann telji að ekki eigi að leyna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina