Einkanúmer enn vinsæl

„Einkanúmerin eru enn mjög vinsæl en nú er búið að skýra reglurnar dálítið betur. Eftir að númerapotturinn breyttist þannig að númer urðu þrír bókstafir og tveir tölustafir þá er slíkt bannað samhliða með einkanúmerum. Einnig er skýrt ítarlega í nýjustu reglugerð hvernig nota á o og 0 sem henti áður að ruglaðist saman. Vinsælast er að fólk sæki um gömlu númerin sín og hefur þetta verið sérlega vinsælt á til dæmis Akranesi og Akureyri þar sem margir hafa fengið sér númer sem byrja á e,“ segir Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri ökutækjasviðs hjá Umferðarstofu. Fjöldi pantaðra einkamerkja frá janúar síðastliðnum er alls 943 sem styður það augljóslega að áhugi fyrir slíku hefur alls ekki dvínað.

Einkamerki mega vera á bifreiðum og bifhjólum og mega í áletrun vera 2-6 íslenskir bókstafir og/eða tölustafir og má áletrunin hvorki brjóta í bága við íslenskt málfar né vera líkleg til að valda hneykslun. Hægt er að sækja um merki fyrir sjálfan sig en einnig gjafamerki handa öðrum. Gjald fyrir réttinn til einkamerkis er kr. 25.000 en við umsókn um einkamerki skal að auki greiða gjald fyrir framleiðslu merkja, kr. 5.200 og kr. 500 fyrir skráningu einkamerkja á ökutæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert