Varmá lifnar við eftir klórslys í fyrra

Veitt í Varmá
Veitt í Varmá mbl.is/Einar Falur

Sjóbirtingsparadísin Varmá í Ölfusi varð fyrir miklu áfalli síðasta vetur þegar stór klórgeymir við sundlaugina í Hveragerði tæmdist út í ána. Nokkrir dagar liðu áður en atvikið uppgötvaðist og þegar að var gáð hafði mikið af sjóbirtingi, stórum sem smáum, drepist. Í framhaldinu var lokað fyrir alla veiði í ánni. Magnús Jóhannsson, fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun, sem rannsakaði Varmá eftir slysið, segir að nánast engin seiði hafi fundist á nokkurra kílómetra kafla niður eftir ánni, frá þeim stað er klórinn lak í ána. Hann sagði mun meira hafa verið af seiðum ofan við slysstaðinn. „Við gerðum aðra rannsókn í júlí og þá var seiðaástandið miklu betra en eftir slysið. Fyrstu niðurstöður benda til þess að það séu mest seiði á fyrsta ári sem annað hvort hafa klakist út fyrir ofan slysstaðinn eða þá eitthvað af hrognunum hefur lifað slysið af,“ sagði Magnús. Eftir þessar athuganir var ákveðið að leyfa aftur takmarkaða veiði í ánni. Frá 1. september er veitt á þrjár stangir í ánni og mjög vel er fylgst með að öllum fiski sé sleppt aftur. Auk þess er mikil áhersla lögð á að allur afli sé mældur og skráður í veiðibók.

„Þetta er gert til að meta ástandið. Við erum líka með hugmyndir um að koma upp fiskteljara til að fylgjast betur með gangi mála,“ sagði Magnús. „Við vitum ekki hvað drapst mikið af þessum stóra hrygningarfiski en það bendir allt til þess að talsvert hafi drepist,“ sagði hann en tók fram að vaxtarskilyrði í ánni væru frábær ef allt væri í lagi. „Áin er mjög framleiðslurík og á að geta framleitt fullt af seiðum og fiski ef allt er í lagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert