Kannast ekki við áreiti og ofbeldi í Laugardal

Grasagarður Reykjavíkur í Laugardal.
Grasagarður Reykjavíkur í Laugardal. mbl.is/Frikki

„Það er ákveðin vísbending um að við þurfum að auka eftirlit ef við fáum tilkynningar frá fólki, en því er ekki fyrir að fara í Laugardalnum,“ segir Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir móður níu ára stúlku að Laugardalurinn væri ekki öruggur og mörgum foreldrum ofbjóði vegna áreitis og jafnvel ofbeldis gagnvart börnum og fullorðnum. Árni kannast ekki við tilkynningar um slíkt né Ásmundur Vilhelmsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Þróttar.

Þróttur er með knattspyrnuaðstöðu í Laugardalnum og sækja þangað fjölmargir ungir iðkendur á hverjum degi og fram á kvöld. Ásmundur segist ekki hafa heyrt kvartanir vegna óöryggis í Laugardalnum og ummæli konunnar koma honum eiginlega í opna skjöldu. Hann segir þó að í Laugardal, líkt og á öðrum stórum opnum svæðum megi alltaf gera betur, s.s. hvað varðar lýsingu og annað í þeim dúr. Hann lítur hins vegar ekki svo á að keyra þurfi börn á æfingar.

Ekki heyrt af eða séð afbrot

Eldri maður hringdi jafnframt í Morgunblaðið vegna fréttarinnar í gær. Hann segist hafa gengið um Laugardalinn á hverjum degi í mörg ár, klukkutíma í senn og hvort sem er að morgni eða kvöldi. Maðurinn segir oft mikla umferð um dalinn en aldrei hafi hann heyrt af né séð þar afbrot framin. Og ekki hafi hann séð fíkniefnasala halda þar til, líkt og móðirin lét í veðri vaka.

Árni Þór segist muna eftir tveimur minni háttar líkamsárásum í Laugardalnum, en þar af hafi önnur verið vegna rifrildis á knattspyrnuæfingu. Hvað varðar sprautunálar sem móðirin segir hafa fundist segir Árni Þór: „Við höfum verið að reka okkur á að sprautur hafa fundist á ólíklegustu stöðum. Ég vil benda foreldrum á að brýna fyrir börnum sínum að láta svona hluti eiga sig, en láta vita af þeim.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »