Segja þvert nei við kostnaði

mbl.is

Sveitarfélög á Austurlandi hyggjast ekki taka þátt í strætókostnaði námsmanna á höfuðborgarsvæðinu.Strætó bs sendi frá sér tilboð þar að lútandi í vikunni.

Austurglugginn sendi fyrirspurnir til sveitarstjórna á svæðinu um hvort boðið breytti einhverju um afstöðu þeirra til hlutdeildar í kostnaði. Öll svörin sem Austurglugganum bárust voru neikvæð.

Þrjár sveitarstjórnir hafa þegar svarað óskum námsmanna um þátttöku í strætókortum neitandi. Svipuð mál hafa borist inn á borð fleiri sveitarstjórna og verða tekin til umfjöllunar á næstunni.

Einn sveitarstjóranna sagði ótrúlegt að svona mál kæmu ítrekað upp. Enn einu sinni væri landsbyggðarsveitarfélögunum og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu att saman vegna þess að Reykjavík væri einu sinni höfuðborg og eðlilegt að hún sinnti því hlutverki.

Ótækt væri að landsbyggðarfólki væri stillt upp gagnvart heimasveitarfélögum sínum eins og nú hafi verið gert.  Annar svaraði einfaldlega „Nej - for helvede!“ 

Í Fjarðabyggð fengust þær upplýsingar að almenningssamgöngur væru ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga og ekki gert ráð fyrir þeim í tekjustofnum. Þar hafi verið reynt að skilgreina sérstaklega skipulagðar samgöngur í þágu unglinga undir bílprófsaldri. Helga Jónsdóttir, bæjarstýra, segir að sveitarfélagið muni þrýsta á borgaryfirvöld að endurskoða afstöðu sína enda væru augljós rök fyrir því. 

„Höfuðborgarsvæðið vill halda uppi almenningssamgöngum undir merkjum umhverfisverndar og til að draga úr óhóflegri bílaumferð með tilheyrandi töfum.  Þess vegna hefði maður haldið að markmiðinu væri fremur náð með því að hvetja alla námsmenn til notkunar strætó heldur en að undanskilja þá sem eiga lögheimili annars staðar. “ 

Seinasta vetur var gerð tilraun sem fólst í því að öllum námsmönnum var boðið frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu. Ákveðið var að halda áfram með verkefnið, nema að þeir sem eiga lögheimili utan þeirra sveitarfélaga sem aðilar eru að Strætó bs. fá ekki að vera með í vetur.

Austurglugginn.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert