Tvíhliða upptaka evru óraunhæf

Ágúst Ólafur Ágústsson
Ágúst Ólafur Ágústsson

Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar átti opinn og hreinskiptinn fund með Olli Rehn, stækkunarstjóra ESB, í kvöld. Ágúst Ólafur Ágústsson, annar formanna Evrópunefndarinnar segir að Rehn teldi óraunhæft að Íslendingar tækju upp evru á grundvelli samnings um Evrópska efnahagssvæðið, tvíhliða upptöku.  

Rehn hafi sagt að það væri ekki vilji innan ESB fyrir slíkri leið. Hann hafi jafnframt sagt að aðildarumræður Íslands að sambandinu ættu að geta tekið skamman tíma enda væru Íslendingar þegar búnir að taka upp tvo þriðju efniskafla regluverksins.

Nefndin átti kvöldverðarfund með sendiherrum og öðrum aðilum úr ESB og þeir hafi allir verið mjög neikvæðir á tvíhliða upptöku. Það væri hvorki hagur Íslendinga né raunhæfur kostur.

Evrópunefndin fundar með Joaquín Almunia, sem fer með efnahagsmál innan ESB, á miðvikudag. Þar verður m.a. tvíhliða leiðin ítarlega rædd og farið yfir hvort lagalegar hindranir séu fyrir hendi. Á miðvikudag er einnig á dagskrá fundur með fulltrúa Evrópska seðlabankans.

mbl.is