Bókagjöf frá bandaríska sendiráðinu

Aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna, Neil Klopfenstein, afhenti Ólafi Þ. Harðarsyni gjöfina í …
Aðstoðarsendiherra Bandaríkjanna, Neil Klopfenstein, afhenti Ólafi Þ. Harðarsyni gjöfina í kennslustund í bandarískum stjórnmálum hjá Steini Jóhannsssyni.

Sendiráð Bandaríkjanna færði í dag Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands veglega bókagjöf um alþjóðamál. Þetta er í þriðja sinn sem stofnunin og nemendur taka við slíkri gjöf frá sendiráðinu, að því er segir í fréttatilkynningu. Að þessu sinni er umfjöllunarefnið bandarísku kosningarnar frá fræðilegu sjónarmiði.

Vorið 2006 gaf sendiráð Bandaríkjanna Alþjóðamálastofnun tæplega tvö hundruð bækur um alþjóðamál, öryggis- og varnarmál. Síðan hefur verið bætt við nýútkomnum fræðibókum á þessu sviði á hverju hausti. Fræðimenn við Háskóla Íslands velja bækurnar til að þær nýtist sem best við kennslu og rannsóknir við háskólann. Landsbókasafn-Háskólabókasafn hýsir bókakostinn og er aðgangur að honum öllum leyfður.

Í fréttatilkynningu frá Alþjóðamálastofnun segir að líta megi á bókagjöfina sem lið í því að efla Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem miðstöð innlendra rannsókna á sviði alþjóðamála, öryggis- og varnarmála. Góður bókakostur sé undirstaða þess að hægt sé að stunda markvissa rannsókna- og heimildavinnu á þessu sviði. Bókagjöfin styrki einnig meistaranám í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands og þau fjölmörgu námskeið sem boðið sé upp á við háskólann um alþjóðamál, bæði í grunn- og framhaldsnámi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert