Baksvið: Sagan bak við deiluna á Suðurnesjum

Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri ásamt samstarfsmönnum sínu, Eyjólfi Kristjánssyni, Guðna Geir ...
Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri ásamt samstarfsmönnum sínu, Eyjólfi Kristjánssyni, Guðna Geir Jónssyni og Ásgeiri J. Ásgeirssyni sem ákveðið hafa að láta af störfum með honum. mbl.is/Árni Sæberg

Ákvörðun dómsmálaráðherra Björn Bjarnasonar um skipulagsbreytingar hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum hefur verið umdeild og hefur nú lyktað með því að Jóhann Benediktsson, lögreglustjóri, hefur ásamt þremur öðrum lykilstarfsmönnum hjá embættinu óskað eftir lausn frá störfum frá og með næstu mánaðamótum.

Málið á sér alllangan aðdraganda og hér á eftir er stiklað á stóru í þessu máli eins og það hefur komið fyrir í fréttum og umfjöllum í miðlum Árvakurs, þ.e. Morgunblaðinu, 24 stundum og mbl. is á liðnum misserum:

4. september 2006 - Lögreglan og Tollgæslan þurfa auknar heimildir, mannskap og fjármuni til að berjast gegn og uppræta sölu- og dreifikerfi fíkniefnasala hér á landi, að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli. Hann telur að glæpahópur frá Litháen hafi skotið rótum hér á landi og stundi innflutning, dreifingu og framleiðslu amfetamíns.

„Við höfum ekki náð að uppræta sölu- og dreifikerfið. Við höfum ekki náð fjöldahandtökum á þeim sem dreifa efnunum. Það hlýtur að þurfa til að við upprætum þetta krabbamein að við náum til allra þátta þessarar starfsemi og þar held ég að sé verk að vinna,“ segir Jóhann.

„Þótt þetta séu óþægilegar staðreyndir sem við okkur blasa í þessu máli, þá á þessi þróun sér stað og við þurfum að berjast gegn henni með öllum ráðum,“ segir Jóhann. Spurður hvað felist í auknum heimildum, segist Jóhann meðal annars vilja að lögreglan fái með skjótari hætti heimildir til hlerunar og efla tækjabúnað og getu til að fylgjast með hópum sem taldir eru skipulagðir glæpahópar. Lögreglu- og tollgæsluyfirvöld hafa það sem af er árinu í þrígang stöðvað tilraunir Litháa til að smygla miklu magni af amfetamíni til landsins og segir Jóhann þekkt í fíkniefnaheiminum að svona miklu magni sé ekki smyglað nema menn geti komið því í verð. Jóhann telur að sá hópur sem standi að baki smygltilraununum sé vel skipulagður og hafi komið sér upp kerfi hér á landi.

5. september 2006 - Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur allt benda til þess að skipulagður glæpahópur frá Litháen hafi skotið rótum hér á landi.

Hann tekur því undir orð Jóhanns R. Benediktssonar sýslumanns á Keflavíkurflugvelli um þetta efni.

„Ég hef í ræðu og riti varað við því undanfarin ár, að við yrðum að búa lögreglu og tollgæslu undir að hér mundu alþjóðlegir glæpahringir leitast við að skjóta rótum. Og fyrir nokkru lýsti ég sömu skoðun og sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli,“ sagði Björn.

„Ég hef hvatt lögregluna til að taka á þessum málum á þann veg, að um slíka starfsemi sé að ræða. Við sjáum nú, að fjöldi Litháa hefur verið handtekinn undanfarna mánuði, sem staðfestir að tollverðir og lögreglumenn hafa ekki látið sitt eftir liggja við landamæravörsluna,“ segir Björn.

Háttsettur heimildarmaður innan lögreglunnar sagði að í svokölluðu líkfundarmáli á Neskaupstað, sem upp kom í febrúar 2004, hefðu komið fram vissar vísbendingar um skipulag innflutnings á amfetamíni frá Litháen.

Ljóst væri að um skipulegan innflutning væri að ræða, en engin ástæða væri til að óttast það neitt frekar en þegar Íslendingar settu sig í samband við erlenda aðila og flyttu efni hingað til lands, eins og tíðkast hefði í gegnum tíðina.

30. janúar 2007 - „Mikil orka leysist úr læðingi við sameiningu þessara tveggja liða," sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við athöfn í lögreglustöðinni í Keflavík þegar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra staðfesti til bráðabirgða skipurit nýs lögregluembættis. Lögreglan á Suðurnesjum varð til um áramót með sameiningu lögreglunnar í Keflavík og lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli.

Tvö lögreglulið voru á Suðurnesjum. Lögreglan í Keflavík sem sýslumaðurinn í Keflavík stjórnaði og heyrði undir dómsmálaráðuneytið og lögreglan á Keflavíkurflugvelli sem sýslumaðurinn á Keflavíkurvelli stjórnaði og féll undir utanríkisráðuneytið.  Jóhann R. Benediktsson sem var sýslumaður á Keflavíkurflugvelli tók við stjórn hins sameinaða liðs. Við athöfnina í gær sagði dómsmálaráðherra frá aðdraganda þessara breytinga. Hann rifjaði það upp að margt hefði breyst frá því unnið var að lagasetningu um nýskipan lögreglumála fyrir ári og nefndi sérstaklega brottför varnarliðsins og þar með að varnarsvæði heyri nú sögunni til.

Jóhann R. Benediktsson sagði við þetta tækifæri að með sameiningunni yrði til öflugt alhliða löggæslulið með mikla reynslu og sérhæfingu á mörgum sviðum sem gæti nýst á landsvísu. Starfsmenn eru alls 220, þar af 90 í lögreglu, 70 í öryggisdeild á Keflavíkurflugvelli og 50 í tollgæslu.

Íbúar á Suðurnesjum eiga að verða varir við öflugri löggæslu, að sögn Jóhanns. Þannig verður grenndarlöggæsla efld og sýnileiki lögreglu aukinn. Jóhann nefnir í því sambandi að lögreglubifreiðum verði fjölgað úr átta í tíu auk þess sem tvö bifhjól bætist í flotann. Tilraun verður gerð með að hafa lögreglumenn eina við eftirlit á bílum. Lögregla verður meira við á lögregluvarðstöðinni í Grindavík, sérstaklega um helgar. Þá verða opnaðar lögregluvarðstofur í Sandgerði, Garði og Vogum. Er það gert í samvinnu við sveitarfélögin sem leggja til húsnæðið.

Þá verður rannsóknadeild efld með því að bæta þar við að minnsta kosti tveimur mönnum og verða þeir ellefu. Sett verður upp fíkniefnateymi með fjórum mönnum en einn lögreglumaður hefur sinnt þeim verkefnum til þessa. Jafnframt vakti lögreglustjórinn athygli á því að tollgæslan á Suðurnesjum væri einnig undir hans stjórn, hún væri öflugt fíkniefnateymi og samstarfið yrði aukið. Sagði Jóhann að til athugunar væri að rannsaka fleiri fíkniefnamál sem upp kæmu í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

12. mars 2007 - „Við vonum að meintir brotamenn festi sér þetta kvöld í minni því þetta á eftir að endurtaka sig,“ segir Jóhann R. Benediktsson sem er lögreglustjóri Suðurnesja. Um helgina gerðu lögregluyfirvöld umfangsmikla rassíu í fíkniefnamálum á svæðinu.

„Við sameiningu embætta tollstjóra og lögreglu á Suðurnesjum myndast aukinn slagkraftur og það er auðveldara á allan hátt að skipuleggja svona stærri aðgerðir," segir Jóhann. Auk þess sé nú verið að þétta samstarf við sérsveit og greiningardeild Ríkislögreglustjóra en aðgerðir fóru fram í samstarfi við þær. "Við erum einfaldlega að herða okkur í baráttu gegn sölu og dreifingu fíkniefna á Suðurnesjum."

Um var að ræða alhliða aðgerðir á öllu svæðinu en alls tóku 36 lögreglumenn, fjórir tollverðir og tveir fíkniefnahundar þátt í þeim. Farið var í sex húsleitir og þar af voru fimm framkvæmdar á sama tíma á laugardagskvöld. Í öllum tilfellum fundust fíkniefni; samtals 135 grömm af hassi, 65 grömm af hvítu efni og 10 e-pillur. „Þetta var árangur umfram væntingar, jafnvel þótt við hefðum rökstuddan grun um að allt þetta fólk tengdist notkun, sölu og dreifingu fíkniefna," segir Jóhann. Einnig var eftirlit hert og farið í markvissar aðgerðir á skemmtistöðum þar sem leitað var á tuttugu manns og fundust tvö grömm af amfetamíni á einum.

Allir sem við sögu komu í húsleitum eiga afbrotaferil að baki. Spurður um tengsl við annars konar glæpastarfsemi segir Jóhann að sjaldan sé ein báran stök í þessum efnum. Fólk tengist oft annars konar glæpum, svo sem þjófnaði og peningaþvætti auk þess sem vændi hafi löngum verið fylgifiskur mikillar neyslu ungra kvenna.

17. ágúst 2007 - Fjárhagsvandi Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli hefur verið þekktur um hríð. Halli var á rekstri embættisins upp á 59 milljónir í fyrra og uppsafnaður halli frá fyrri árum var 148 milljónir um áramót (var 89 milljónir árið á undan). Ríkisendurskoðun tekur fram að margvíslegar ástæður séu fyrir þessum vanda. Fjölgun flugfarþega hefur aukið umsvifin, fjölgað verkefnum og kröfum um öryggi sem kalla á meiri fjárútlát án þess að fengist hafi fjárveitingar til að standa undir þeim. Brotthvarf varnarliðsins er að mati sýslumanns talið hafa kostað embættið 77 milljónir kr.

„Ég ber ábyrgðina á rekstrinum og get ekki skýlt mér á bak við neinn hvað það varðar en hins vegar eru mjög flóknar ástæður sem liggja að baki þessari stöðu,“ segir Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. „Þetta mál hefur verið ítarlega rætt á öllum stigum stjórnsýslunnar og á milli margra ráðuneyta. Mönnum eru kunnar staðreyndir á borð við gífurlegan vöxt verkefna á Keflavíkurflugvelli og jafnframt vita menn að það tekur tíma fyrir stjórnsýsluna að vinna úr niðurstöðunni eftir brotthvarf varnarliðsins.

Nýtt embætti lögreglunnar og tollgæslunnar á Suðurnesjum tók til starfa um seinustu áramót. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vinnur með mjög skipulegum hætti úr þeirri stöðu sem við blasir og niðurstaða úr þeirri vinnu mun vonandi liggja fyrir mjög fljótlega.“

17. október 2007 - Ellefu lögreglunemar sem hafa starfað hjá lögreglunni á Suðurnesjum síðustu mánuði fara aftur í Lögregluskólann um áramót. Þar sem enginn lögreglunemi kemur í þeirra stað fyrr en í fyrsta lagi í maí verður lögreglan á Suðurnesjum verulega undirmönnuð þangað til.

„Það kemur mjög illa við okkur að missa ellefu nema um áramótin. Og það bætist við að við erum í sömu stöðu og önnur embætti að því leyti að okkur vantar tilfinnanlega menntaða lögreglumenn," sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Ástandið verður erfitt fram í maí þegar næst verður útskrifað úr Lögregluskólanum en Jóhann vonast til að þá komi nýútskrifaðir lögreglumenn til starfa hjá embættinu auk fimm lögreglunema. Jóhann sagði að verið væri að fara yfir hvernig brugðist yrði við en m.a. mætti gera ráð fyrir að allir yfirmenn sem fram að þessu hefðu ekki gengið vaktir, yrðu að taka vaktir um helgar, þ.m.t. hann sjálfur og aðstoðarlögreglustjórinn. Jafnframt yrði embættið að reyna að fá afleysingamenn til starfa og auka tímabundið samstarf deilda, þ.ám. samstarf tollgæslu og lögreglu. 

VANTAR 15 UM ÁRAMÓT

Hjá lögreglunni á Suðurnesjum starfa nú 73 lögreglumenn og þegar nemarnir eru taldir með eru þeir alls 84. Þrátt fyrir liðsinni nemanna er embættið þó ekki fullmannað lögreglumönnum ef miðað er við þann fjölda sem var við störf þegar embættin á Suðurnesjum voru sameinuð. Fjóra lögreglumenn vantar til embættisins, við núverandi aðstæður, en þegar nemarnir fara í skólann um áramót mun embættið vanta 15 lögreglumenn.

Lögreglunemarnir starfa allir í almennri deild. Aðspurður sagði Jóhann að á vakt hjá almennri deild ættu að vera 12 lögreglumenn en vegna manneklunnar hefðu 7-9 verið á hverri vakt.

29. mars 2008 - Eyjólfur Kristjánsson, yfirlögfræðingur lögreglustjórans á Suðurnesjum, telur útilokað að með skiptingu lögregluembættisins í þrennt verði hægt að spara fjármuni eða auka skilvirkni, heldur muni útgjöld vegna tollgæslu og löggæslu þvert á móti aukast. Dómsmálaráðuneytið hafi vitað að fjárheimildir dygðu ekki fyrir útgjöldum embættisins árið 2008 og því hefði ekki átt að koma á óvart að embættið óskaði eftir 210 milljónum í aukið rekstrarfé.

Dómsmálaráðuneytið tilkynnti um skipulagsbreytingarnar hinn 19. mars, daginn fyrir skírdag. Samkvæmt ákvörðun ráðherra verður tollgæsla á forræði fjármálaráðherra, öryggisgæsla á forræði samgönguráðherra en löggæsla og landamæragæsla áfram á forræði lögreglustjórans og dómsmálaráðuneytisins. 

 VILDU SPARA 210 MILLJÓNIR Í VIÐBÓT

Embætti lögreglustjórans lagði fram rekstraráætlun fyrir árið 2008 hinn 11. febrúar eftir langa og stranga meðgöngu. Í bréfi frá ráðuneytinu 4. mars segist ráðuneytið ekki fallast á rekstraráætlunina og benti sérstaklega á að þær forsendur sem embættið gæfi sér fyrir viðbótarfjárveitingum væru ekki til staðar. Embætti lögreglustjórans óskaði annars vegar eftir 86,4 milljónum vegna tekjutaps í kjölfar brotthvarfs hersins og hins vegar eftir 123,5 milljóna viðbótarfjárveitingu vegna vísitöluhækkunar öryggisgjalds. Ráðuneytið sagði að þannig mætti gera ráð fyrir að fjárveitingum að fjárhæð 210 milljónir væri ofaukið í rekstraráætluninni. Þar að auki væri gert ráð fyrir fjölgun lögreglumanna, tollvarða og öryggisvarða frá því sem nú er o.fl.

Ráðuneytið gaf embættinu frest til 10. mars, sex daga, til að koma með nýja áætlun. Þann dag áttu Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fund um málið ásamt starfsmönnum sínum en engin lausn náðist þar því níu dögum síðar tilkynnti dómsmálaráðuneytið að embættinu yrði skipt upp.

Björn Bjarnason er í opinberum erindagjörðum í Chile og hafði ekki tök á því að svara spurningum Morgunblaðsins í gær, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Jóhann vildi ekki ræða málefni embættisins við Morgunblaðið í gær og því varð Eyjólfur Kristjánsson yfirlögfræðingur fyrir svörum. 

 Í SAMVINNU VIÐ RÁÐUNEYTIÐ

Eyjólfur tók skýrt fram að fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 hefði verið unnin í náinni samvinnu við dómsmálaráðuneytið og ráðuneytinu hefði, á upphafsstigum málsins, verið gerð grein fyrir því að embættið þyrfti viðbótarfjárveitingu upp á 210 milljónir króna. Þá hefði verið skilningur innan ráðuneytisins á að rekstraráætlunin yrði lögð fram með þessum forsendum. Starfsmenn embættisins hefðu búist við að ráðuneytið myndi styðja lögreglustjóraembættið við að sækja sér þetta fé og leiðrétta þar með skekkju sem væri í fjárhagsgrunni embættisins. „En þeir taka síðan þann pól í hæðina að láta eins og þetta komi þeim á óvart. Við vorum undir það búnir að ráðuneytið myndi gera einhverjar athugasemdir við þetta. En ekki með þessum hætti,“ sagði Eyjólfur. 

MIKLAR TAFIR Á ÁÆTLUN

Þegar ljóst varð að embættið fengi ekki aukafjármuni hefði það lagt til samdrátt, m.a. að fresta sumarleyfum, ráða ekki til sumarafleysinga og að segja upp 10-15 lögreglumönnum eða tollvörðum. Um 85% af útgjöldum væru laun og því hlyti sparnaður að koma niður á starfsfólki, að sögn Eyjólfs. Þá benti hann á að embættið væri þegar undirmannað vegna skorts á menntuðum lögreglumönnum en hefðu þeir fengist til starfa, hefði hallinn árið 2007 verið enn meiri. Árið 2008 hefði eingöngu átt að fullmanna liðið þannig að það yrðu álíka margir og fyrir sameiningu. Ekki hefði verið gert ráð fyrir að þeim myndi fjölga umfram það.

Þegar embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli og lögreglan í Keflavík sameinuðust var uppsafnaður halli sýslumannsembættisins þurrkaður út með aukafjárveitingu upp á tæplega 160 milljónir króna. Í skýrslum Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga 2005 og 2006 kemur m.a. fram að hluti af ástæðunni fyrir hallarekstri væri að verkefnum hefði verið bætt á embættið án þess að fjárheimildir kæmu í staðinn. Í skýrslu fyrir árið 2005 segir að aukin umsvif hafi verið með „fullri vitund og vilja“ utanríkisráðuneytisins.Eyjólfur sagði að vandinn hefði ekki horfið þegar hallinn var gerður upp, kjarni málsins væri sá að verkefnin hefðu aukist án þess að fjármagn kæmi í staðinn. Á hinn bóginn hefðu hagræðingaraðgerðir skilað sífellt aukinni framlegð á hvern starfsmann. Þá yrði að horfa til þess að öryggisgjald sem lagt er á hvern farþega hefði ekkert hækkað frá árinu 2004 en laun og kostnaður hins vegar hækkað mikið. Hefði gjaldið haldið í við vísitölu, hefðu tekjur embættisins verið 123,5 milljónum hærri í ár. Ef embættinu hefði verið bættur tekjumissir vegna brottfarar varnarliðsins, hefðu bæst við 86,4 milljónir. Á þessu byggðust fyrrnefndar forsendur fyrir óskum um viðbótarfjármagn.

Eins og fyrr segir lagði lögreglustjóraembættið rekstraráætlunina fram hinn 11. febrúar sl. Samkvæmt starfsreglum verða stofnanir hins opinbera sem vilja auknar fjárheimildir að gera tillögur þar að lútandi í febrúar árið á undan, í þessu tilfelli í febrúar 2007.

Að sögn Eyjólfs er ástæðan fyrir því að óskin um viðbótarfjármagn barst svo seint einkum sú að miklir hnökrar voru á því þegar embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var fært frá utanríkisráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins og sameinað lögreglunni í Keflavík. Önnur lögreglulið hefðu unnið að sameiningunni allt árið 2006 en sýslumannsembættið ekki verið kallað að starfinu fyrr en í árslok 2006. Þetta hefði sett alla undirbúningsvinnu fyrir fjárlög 2008 í uppnám og embættið í raun ekki haft forsendur til að skila ósk um viðbótarfjármagn fyrr en nú. Hann bætti við að embættið hefði nú þegar skilað inn ósk um aukafjárheimildir fyrir árið 2009 en þar er óskað eftir 287 milljóna króna hærri fjárveitingu.

Eyjólfur sagði að m.a. vegna erfiðleika við gerð rekstraráætlunar hefði dómsmálaráðuneytið skipað nefnd sem var m.a. ætlað að gera úttekt á rekstri og fjármálaumsýslu lögreglustjórans á Suðurnesjum og aðstoða við gerð rekstraráætlunar. Áætlunin hefði verið unnin í fullu samstarfi við nefndina sem hefði fyrir sitt leyti fallist á að afhending utanríkisráðuneytisins á sýslumannsembættinu og móttaka dómsmálaráðuneytisins hefði verið illa útfærð.

Umrædd nefnd var skipuð fulltrúa frá fjármálaráðuneytinu og Ríkisendurskoðun auk annars sérfræðings. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu skilaði nefndin ekki formlegri skýrslu.

BÚIÐ AÐ HAGRÆÐA Í BOTN

Eyjólfur sagði að embættið gæti ekki hagrætt meira í rekstri, það væri komið yfir þau vatnaskil. Sú sársaukafulla hagræðing sem ætti sér stað hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu væri fyrir löngu yfirstaðin á Suðurnesjum. Þá sagðist hann óttast að samvinna lögreglu og tollgæslu myndi minnka ef embættinu væri skipt og tveir stjórnendur settir yfir það í stað eins. Það yrði þá væntanlega rekið á aðskildum fjárlagaliðum sem gæti skapað margvíslegan vanda. Hann nefndi sem dæmi að í dag ynnu lögfræðingar embættisins bæði að saksókn sakamála og að tollamálum „á sama deginum og við sama skrifborðið. Ég skipti þeim mönnum ekki upp svo létt,“ sagði hann. Eyjólfur sagði að fjárþörf embættisins yrði áfram til staðar, hvað sem liði skiptingunni. Hann kvaðst verulega ósáttur. „Ég kalla bara eftir því sem starfsmaður þessa embættis, sem þegn í þessu landi og sem sjálfstæðismaður í áratugi að Sjálfstæðisflokkurinn standi við það sem hann lofaði á landsfundi á síðasta ári, að auka stuðning við löggæsluna í landinu eftir sameiningu lögregluembættanna. Sameining lögregluliðanna í landinu verður ekki giftusamleg fyrr en þessi aukni stuðningur kemur til.“

RÖKIN SKÝR

Eftirfarandi tilkynning barst frá dómsmálaráðuneytinu í gær:

„Í tilefni af fyrirspurnum frá fjölmiðlum varðandi breytingar á skipan löggæslu- og tollgæslumála á Suðurnesjum tekur dóms- og kirkjumálaráðuneytið fram eftirfarandi. Rökin fyrir breytingunum eru alveg skýr; hagræðing, bætt stjórnsýsla og skýr ábyrgð. Undanfarin ár hefur rekstur embættisins farið fram úr fjárheimildum og með þessum aðgerðum er verið að leggja traustari grunn að skilvirkari stjórnsýslu og betra rekstrarumhverfi. Það að lögreglu- og tollstjórinn á Suðurnesjum hafi haft á einni hendi lög-, öryggis- og tollgæslumál er arfur frá þeim tíma er utanríkisráðuneytið fór með yfirstjórn mála á Keflavíkurflugvelli fyrir hönd allra ráðuneyta meðan á dvöl varnarliðsins stóð. Með breytingunni er verið að færa stjórnsýslulega skipan mála í það horf sem almennt er í landinu.

Skipulagsbreytingarnar miða að því að saman fari stjórnsýsluleg og rekstrarleg ábyrgð og eru þær ekki settar fram í sparnaðarskyni. Þær miðast að því að færa verkefnin undir forsjá þess ráðuneytis sem ber ábyrgð á hverjum málaflokki; tollgæslan heyrir undir fjármálaráðuneytið, öryggismál eru á forræði samgönguráðuneytis og löggæsla og landamæragæsla áfram á forræði dóms- og kirkjumálaráðherra.

Breytingarnar munu ekki hafa í för með sér minni samvinnu lögreglu, landamæragæslu, tollgæslu og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli og eiga því á engan hátt að draga úr þeim árangri sem náðst hefur. Hér eftir sem hingað til munu tollverðir, lögreglumenn og öryggisverðir ákveða og skipuleggja samstarfið sín á milli þannig að það verði sem árangursríkast. Markmiðið er að styrkja hverja einingu en um leið að halda í heiðri og efla samstarfið á milli þeirra.

Tekið skal sérstaklega fram að ekki stendur til að færa landamæragæslu frá lögreglustjóraembættinu.

Ráðuneytinu hefur ekki borist uppsögn frá Jóhanni R. Benediktssyni.“

SAMEINING VIÐ TOLLSTJÓRA Í ATHUGUN

Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, segir að það verði einfaldlega að koma í ljós hvort breyting á tollgæslu á Suðurnesjum leiði til minni útgjalda fyrir ríkissjóð. „Ég get ekkert sagt um það á þessu stigi hvort þetta verði til þess að spara fjármuni,“ sagði Böðvar.

Aðspurður sagðist hann ekki eiga von á því að stofnað yrði sérstakt embætti tollstjóra á Keflavíkurflugvelli, það væri raunar afar hæpið. Í athugun væri að sameina tollgæsluna á Keflavíkurflugvelli og tollstjórann í Reykjavík.

Fyrir rúmlega ári var skipulagi tollamála umbylt með breytingu á lögum og tollumdæmum m.a. fækkað úr 26 í 8. Yrði umdæmið á Keflavíkurflugvelli fært undir tollstjórann, yrði aftur að breyta lögunum, að sögn Böðvars. Ráðuneytið væri að vinna í málinu og niðurstaðan yrði væntanlega kynnt í næstu viku.

Auk þess að vera aðstoðarmaður fjármálaráðherra er Böðvar forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Hann segir að verði embættin sameinuð felist í því heilmikil tækifæri fyrir tollgæsluna á Suðurnesjum. „Ef þetta verður stærra umdæmi get ég ekki séð annað en að það séu heilmikil tækifæri til að flytja verkefni frá Reykjavík og á Suðurnes,“ sagði hann.

Starfsmenn sem hafa sinnt öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli vegna flugverndar, s.s. vopnaleit og skimun á farangri, færast frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum yfir til samgönguráðuneytisins. Um 80 manns vinna við öryggisgæsluna.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, sagði ráðuneytið ágætlega í stakk búið til að taka við þessu verkefni. Hún sagðist ekki hafa upplýsingar um hversu miklir fjármunir færðust yfir til ráðuneytisins vegna þessa. Verið væri að fara yfir málið í ráðuneytinu. Hún sagðist ekkert geta sagt um hvort ætlunin væri að spara fjármuni með þessum hætti. „Eðli málsins samkvæmt get ég engu svarað um það heldur. Við tökum við þessari starfsemi nákvæmlega eins og hún er, hún færist bara yfir til Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli þannig að það verður engin breyting núna.“

VILL HÆTTA SEM LÖGREGLUSTJÓRI

Ákvörðun dómsmálaráðherra um að skipta upp embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum kom starfsmönnum þess í opna skjöldu og síðan hefur verið mikill titringur meðal þeirra.

Í gær kom síðan í ljós að Jóhann R. Benediktsson hefði ekki lengur áhuga á starfi lögreglustjóra því hann óskaði eftir viðræðum um starfslok við settan dómsmálaráðherra, Einar Kristin Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

„Ég mun ekki taka þátt í að leysa í sundur það viðkvæma gangverk sem tók langan tíma að setja saman og hefur skilað metárangri. Ég mun ekki taka þátt í því,“ sagði Jóhann við Morgunblaðið í gær.

Jóhann R. Benediktsson var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli árið 1999 og var síðan gerður að lögreglustjóra á Suðurnesjum árið 2007.

29. mars 2008 - Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir það alrangt, sem hann hafi lesið á bloggum, að samstarf þeirra Jóhanns Benediktssonar, sýslumanns í Keflavík, hafi verið allt annað en gott og að Björn hafi verið með samblástur gegn honum.

Jóhann sagðist í gær ætla að ræða um starfslok sín við dómsmálaráðherra vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Sagði Jóhann, að hann muni ekki taka þátt í að leysa í sundur það viðkvæma gangverk sem hafi tekið langan tíma að setja saman og skilað metárangri.

Björn segir á heimasíðu sinni, að ráðuneytið hafi mótað framtíðarstefnu fyrir embættið, eftir að hafa fengið tillögur frá því, sem sýndi það í fjárhagslegum ógöngum miðað við fjárlög 2008.

1. apríl 2008 - Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, var boðaður til fundar við Geir H. Haarde forsætisráðherra klukkan tíu í gærmorgun til að ræða ósk sína um viðræður um starfslok og andstöðu innan embættis síns vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á því.

Viðræðurnar koma í kjölfar þess að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra tilkynnti fyrirvaralaust miðvikudaginn fyrir páska að embætti Jóhanns yrði skipt upp í þrjár einingar til að ná tökum á fjármálum þess. Tollgæslu- og lögreglumenn hjá embættinu hafa mótmælt uppskiptingunni harðlega.

HITTI BJÖRN OG LÚÐVÍK EINNIG

Samkvæmt heimildum 24 stunda fundaði Jóhann með fleiri háttsettum ráðamönnum í gær, meðal annars Lúðvík Bergvinssyni, þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Þá hafði Björn Bjarnason óskað eftir því að funda með Jóhanni strax og hann kom til landsins, en hann lenti um fjögurleytið síðdegis í gær eftir að hafa verið erlendis undanfarna daga. Samkvæmt heimildum 24 stunda fór sá fundur fram í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

24 stundir sendu Birni spurningar um málið með tölvupósti. Hann svaraði þeim ekki beint en vísaði í þær upplýsingar sem ráðuneyti sitt hefði þegar gefið og á skrif sín á heimasíðu sinni. 

1. apríl 2008 - Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, ítrekaði þá skoðun á Alþingi í dag, að það þyrftu allt önnur rök, sem komið hefðu fram til þessa, til að sannfæra hann um gagnsemi þess að skipta upp lög- og tollgæslu á Suðurnesjum.  Árni Páll Árnason, flokksbróðir hans, sagði einnig mikilvægt að kalla eftir faglegum rökum fyrir þessari ákvörðun.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Lúðvík í upphafi þingfundar um yfirlýsingu sem hann gaf á Alþingi í gær að hann hefði efasemdir um að skipta upp lög- og tollgæslunni á Suðurnesjum.

Lúðvík sagði meginatriðið væri að lögreglan fengi vinnufrið til að tryggja öryggi borgarinnar. Þá sagði Lúðvík ljóst, að engin vandræði hefðu verið hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum. Því væri ljóst að veigamikil rök þyrftu til að breyta fyrirkomulagi, sem gengi vel og því hefði hann miklar efasemdir um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ljóst að áform dómsmálaráðherra gengju út á að færa stjórnsýslumál á Keflavíkurflugvelli í þau horf sem stjórnsýsla þessara mála væri almennt í á landinu. Birgir sagði, að þetta útilokaði ekki að það góða og nána  samstarf sem verið hafi milli þessara mismunandi greina ríkisvaldsins haldi áfram en það muni hjálpa til að ná utan um fjármuni í þessari starfsemi að skýra stjórnsýslulega og rekstrarlega ábyrgð betur.

Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að sundra ætti fylkingu, sem standi vörð við Íslands dyr. Standa yrði vörð um hið mikla starf sem lögreglan og tollgæslan hefðu unnið á Keflavíkurflugvelli síðustu 16 mánuði.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að sér þætti mestu skipta, að hrófla ekki við því sem vel væri gert og staðreyndin væri sú, að starfsemin í Keflavík hefði skilað miklum árangri. Því væri brýnt að kalla eftir faglegum rökum fyrir ákvörðun af þessum toga og mikilvægt væri að fara að með gát þegar í hlut ættu embætti, sem hefðu sýnt gríðarlegan árangur. „Mér finnst þau rök, að fella beri það sem heyrir til fjármálaráðherra til hans, og síðan eigi að setja löggæslu undir dómsmálaráðuneytið ekki sérlega þungvæg enda er hægt að ná þeim árangri án þess að brjóta embættið upp.

Siv sagði ljóst að í þessu máli væri stál í stál og slagsmál milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Kallaði hún eftir svörum frá þingmönnum Samfylkingarinnar um hvort flokkurinn ætli að samþykkja þessar breytingar eða ekki.

Lúðvík sagði, að allt önnur rök þyrftu, en komið hefðu fram, til að sannfæra hann um réttmæti þessara breytinga. Þá sagði hann að meginreglan væri á öllu landinu nema á höfuðborgarsvæðinu, að sami lögreglustjóri væri yfir tollinum og lögreglunni. Því væri sú breyting, sem boðuð hefðu verið á Suðurnesjum, undantekning frá meginreglunni.

„Ég met það þannig, að verði þetta brotið upp muni það til lengri tíma skaða embættið og starfið unnið er þarna suðurfr og ég mun ekki taka þátt í því," sagði Lúðvík.

9. apríl 2004 - Þverrandi líkur eru á að frumvarp um uppstokkun embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum verði afgreitt óbreytt frá þingflokki Samfylkingarinnar.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokks hefur þegar afgreitt frumvarpið en þrír þingmenn Samfylkingarinnar, þar á meðal þingflokksformaðurinn Lúðvík Bergvinsson, hafa gagnrýnt fyrirætlanina í ræðustól Alþingis. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru efasemdaraddirnar fleiri enda hefur hugmyndin mætt andstöðu víða, þar með hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.

Þá telja margir að bíða eigi eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem Frjálslyndi flokkurinn hefur óskað eftir, um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum og árangur af breytingum sem tóku gildi í ársbyrjun 2007. Í þeirri skýrslu á jafnframt að skoða þessar boðuðu skipulagsbreytingar og Frjálslyndi flokkurinn hefur óskað eftir því að lagafrumvörp verði ekki afgreidd fyrr en skýrslan liggur fyrir.

18. apríl 2008 - „Það kom glöggt fram á fundinum að menn telja að landsmönnum sé farið að misbjóða þessi deila hér við lögreglustjóraembættið sem hefur unnið mjög gott starf. Fundarmenn telja að það þurfi að höggva á þessar deilur því þær skaði varnir Íslands,“ segir Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins og þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi.

Hann stóð ásamt Bjarna Harðasyni þingmanni fyrir opnum borgarafundi í Reykjanesbæ í gærkvöldi þar sem málefni lög-, toll- og öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli voru til umræðu.

Að sögn Guðna var mikið fjölmenni á fundinum og allir sammála um að deila dómsmálaráðherra við lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum hefði nú þegar staðið allt of lengi. Menn væru því orðnir langeygir eftir lausn málsins áður en óafturkræfur skaði hefði orðið vegna málsins.

Í lok fundar var með lófataki samþykkt að skora á forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að höggva á þann hnút og deilur sem nú eru uppi um lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum. Að sögn Guðna töldu fundargestir ekki skynsamlegt að hrapa að breytingum og uppstokkun á embættinu því sameinað lögreglu- og tollstjóraembætti hefur náð miklum árangri.

„Þessi deila hefur staðið lengi og er farin að skaða lögregluliðið. Fólkið sem þarna starfar botnar náttúrlega ekkert í því af hverju þetta þarf að vera með þessum hætti. Þannig að starfsfólkið er orðið mjög þreytt á þessari deilu.“

21. apríl 2008 - Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að engar deilur væru um, að það sé rétt að efla og styrkja lögreglustarfsemina á Suðurnesjum.

Geir var að svara fyrirspurn Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokks. Hann sagði, að tekin hefði verið ákvörðun um að greina að almenna löggæslu og tollgæslu og við það væri ekkert að athuga. Verið væri að vinna í þessu máli til að leiða það til farsælla lykta og ágreininsglaust.

15. maí 2008 - Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að nauðsynlegt væri að leiða lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum út úr árlegum fjárhagsvanda en sá vandi veiki innviði embættisins meira en nokkuð annað. Þingmaður Samfylkingar telur að skoða þurfi að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í núverandi mynd.

Staða tollgæslu og lögreglumála á Suðurnesjum var rædd utan dagskrár á Alþingi í dag að beiðni Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Björn sagði að í lok febrúar hefði orðið ljóst að lögreglustjórinn á Suðurnesjum taldi sig ekki geta rekið embætti sitt innan fjárheimilda á árinu og munaði þar 200 milljónum króna. Þetta hefði komið ráðuneytinu í opna skjöldu og það hefði staðið frammi fyrir sambærilegu viðfangsefni og árið 2007 þegar 200 milljóna króna halli blasti við.

Björn sagði, að nefnd sérfróðra manna hefði árið 2007 verið falið að fara í saumana á rekstri og umsýslu embættisins. Nefndin hefði m.a. talið að aðskilja bæri fjárhag einstakra verkþátta embættisins og fella þá fjárhagslega undir viðkomandi ráðuneyti.

Björn sagði, að lagt hefði verið fyrir lögreglustjórann að embættið verði rekið innan fjárheimilda og gjöld umfram fjárheimildir verði langt innan við 200 milljónir í árslok.

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að árangur embættisins á Suðurnesjum væri einstaklega góður. Afstaða Samfylkingarinnar væri sú að faglega og fjárhagslega væri best ein yfirstjórn væri yfir þeim málaflokkum, sem heyrðu undir embættið í Keflavík. Engin rök hefðu komið fram sem breyttu þessari afstöðu. Vandamálið væri, að fjárveitingar Alþingis til embættisins hefðu ekki fylgt þeim verkefnum, sem embættið hefði glímt við.

Lúðvík sagði, að nú þyrfti að skoða að leggja niður embætti ríkislögreglustjóra í þeirri mynd sem það er. Hugmyndin með stofnun embættisins hefði verð, að þar yrði lítil samræmingarmiðstöð löggæslumála í landinu.

Siv sagði í lok umræðunnar, að vitað hefði verið, að fjárveitingar til embættisins hefðu ekki verið nógu háar. Hún sagði, að Lúðvík hefði gefið dómsmálaráðherra og Sjálfstæðisflokknum á lúðurinn með stálkrepptum hnefa með yfirlýsingu sinni um embætti ríkislögreglustjóra.

Björn sagðist geta tekið undir það, að það hefði komið á óvart að embætti ríkislögreglustjóra hefði blandast í þessa umræðu. Sagði hann  það útúrsnúning hjá þingmönnum að reyna að blanda ríkislögreglustjóraembættinu í þetta mál.

24. maí 2008 - Ríkisendurskoðun tekur undir tillögur dómsmálaráðuneytisins um framtíðarskipulag lög- og tollgæslu á Suðurnesjum og telur að fag- og fjárhagsleg markmið stjórnvalda með sameiningu allrar lög- og tollgæslu þar árið 2007 hafi náðst að hluta til. Vel komi til álita að Lögreglustjóranum á Suðurnesjum verði áfram falin dagleg stjórnun verkefna á sviði tollgæslu og flugverndar með sérstökum þjónustusamningum. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Ríkisendurskoðunar um Lögreglustjórann á Suðurnesjum.

Að mati Ríkisendurskoðunar þurfa stjórnvöld með breyttri skipan einnig að taka afstöðu til umfangs lög- og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Þá telur Ríkisendurskoðun að dómsmálaráðuneytið og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi ákveðið að leysa ágreining sinn og vinna sameiginlega að fyrirhuguðum breytingum á skipulagi og rekstri embættisins.

ÝMISLEGT ÁUNNIST MEÐ SAMEININGU

Í úttekt Ríkisendurskoðunar er bent á að ýmislegt hafi áunnist við sameiningu allrar lög- og tollgæslu á Suðurnesjum árið 2007, m.a. hafi hlutfallslegur kostnaður við yfirstjórn minnkað og skilvirkni við afgreiðslu sakamála aukist. Löggæsla hafi hins vegar ekki orðið sýnilegri. Þá telur stofnunin að fjárhagsvanda embættisins megi einkum rekja til aukinna umsvifa þess við öryggisgæslu, fíkniefnaeftirlit og verkefni tengd Atlantshafsbandalaginu. Þessi auknu umsvif voru að hluta til með vitund og vilja utanríkisráðuneytisins, án þess þó að fjárveitingar ykjust að sama skapi. Við brottför varnarliðsins hafi einnig dregið úr sértekjum embættisins án þess að kostnaður minnkaði til samræmis.

Ríkisendurskoðun tekur undir tillögur dómsmálaráðuneytisins um framtíðarskipulag lög-, toll- og öryggisgæslu á Suðurnesjum. Þar er gert ráð fyrir að færa frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum forræði þeirra verkefna á sviði tolla- og flugöryggismála sem heyra undir önnur ráðuneyti svo að fagleg og fjárhagsleg ábyrgð vegna þeirra fari saman. Embættið mun þá eingöngu sinna lögreglumálum, þ.m.t. landamæraeftirliti og öðrum löggæsluverkefnum á Keflavíkurflugvelli.

Þá telur Ríkisendurskoðun nauðsynlegt að kanna til hlítar hvers vegna launakostnaður á stöðugildi er nokkru meiri hjá Lögreglustjóranum á Keflavíkurflugvelli en hjá öðrum lögreglu- og tollstjóraembættum, enda sé ekki nema að hluta tekið tillit til þessa í fjárveitingum til embættisins. Fáist þessi kostnaður ekki viðurkenndur í auknum fjárveitingum ber að grípa til viðeigandi sparnaðar í rekstri. 

 UPPSKIPTING SKYNSAMLEG

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að hann sé ánægður með skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þar sé komist að sömu niðurstöðu og hann hafi komist að um skiptingu embættisins. „Ríkisendurskoðun er sammála mér um það að það sé skynsamlegast að skipta embættinu þannig að hver verkþáttur innan þess falli að stjórnarráðsreglugerðinni og reglum stjórnarráðsins.“

Björn bætti því við aðspurður um framhald málsins á Alþingi að frumvarp þar um tollamálin væri á forræði fjármálaráðherra og hann réði því hvert framhaldið yrði. „Ég tel að sjálfsögðu að það sé mjög skynsamlegt að ganga nú í þetta mál þannig að niðurstaða fáist. Það er engum til gagns að draga það að komast að niðurstöðu,“ sagði Björn ennfremur. 

STYÐUR EKKI FRUMVARPIÐ

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segist vera ánægður með skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Niðurstöðurnar séu í takt við sjónarmið Samfylkingarinnar um að þörf sé á heildarendurskoðun á lögreglustjóraembættunum áður en farið er í að breyta hjá einu embætti. Samfylkingin muni ekki styðja frumvarp til laga um breytingar á lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum enda taki það einungis til þess eina embættis. „Ríkisendurskoðandi hvetur til þess að farið verði út í heildarendurskoðun og það hlýtur að vera verkefnið núna, að fara í stefnumótun með lögreglustjórum um það hvernig skipa eigi löggæslu- og tollamálum til frambúðar. Það er okkar vilji, að málið sé skoðað heildstætt,“ segir Lúðvík.

MARGT JÁKVÆTT Í SKÝRSLUNNI

Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir margt jákvætt í skýrslu Ríkisendurskoðunar um embættið. Í skýrslunni er lagt til að farið verði að tillögum um uppskiptingu embættisins. ,,Á sama tíma vekur Ríkisendurskoðun athygli á að jafnvel þótt öryggis-, toll- og löggæsla heyri hvert undir sitt ráðuneytið þá geti þessir verkþættir heyrt undir sameiginlega yfirstjórn með því að gerðir verði þjónustusamningar á milli ráðuneytanna.“ Hann segir einnig að miklu skipti að tekið sé undir þau sjónarmið að embættið þurfi aukið fjármagn eigi það að halda uppi öflugri toll- og löggæslu.

16. september 2008 - Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir Harald Johannessen ríkislögreglustjóra boða miðstýringu.

„Hugmyndir hans um að lögreglan verði ein stofnun undir stjórn ríkislögreglustjóra og að fjárveitingar til lögreglumála færist til embættis ríkislögreglustjóra eru miðstýring. Þetta er framtíðarsýn sem ég hræðist,“ segir Jóhann.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er þeirrar skoðunar að öll starfsemi sem snýr að almennri eða sérhæfðri löggæslu eigi að vera hjá lögregluembættunum til þess að ríkislögreglustjóraembættið hafi betri forsendur til að sinna stjórnsýsluverkefnum, eftirliti, samræmingu og samhæfingu og öðru slíku.

Ríkislögreglustjóri segir í skriflegu svari við fyrirspurn 24 stunda um mögulegar breytingar á verkefnum lögregluembætta að undir fyrrgreindu fyrirkomulagi gæti embætti hans falið einstökum lögreglustjórum enn frekari verkefni í sínu umboði.

„Kanna þyrfti rækilega kosti og galla þessarar skipunar, en ríkislögreglustjóri hefur ekki séð efnislega sterk rök fyrir því að færa landsvísuverkefni undir núverandi skipan til staðarlögreglustjóra,“ segir í svari ríkislögreglustjóra.

 ENGIN EFNISLEG RÖK

 Lögreglustjórinn á Suðurnesjum kveðst hins vegar telja að engin efnisleg rök séu fyrir því að lögreglunni verði miðstýrt frá Reykjavík, eins og hann orðar það. „Það eru engin rök fyrir því frekar en að öllum sjúkrahúsum eða skólum sé miðstýrt frá Reykjavík. Það er þvert á móti mjög mikilvægt að skerpa hlutverk ríkislögreglustjóra til samræmingar og eftirlits á landsvísu. Lögreglustjórn á sama tíma samræmist ekki þeim störfum. Öll lögreglustjórn á að vera í höndum lögreglustjóranna,“ leggur Jóhann áherslu á.

20. september 2008 - Til stendur að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum í apríl næstkomandi. Þá lýkur fimm ára skipunartíma Jóhanns R. Benediktssonar sem gegnt hefur embætti lögreglustjóra.Eftir því sem næst verður komist hefur ekki áður verið auglýst laus staða forstöðumanns ríkisstofnunar vilji forstöðumaðurinn á annað borð sinna starfinu áfram.

„Ég get staðfest að mánudaginn 1. september var mér afhent formlega bréf frá dómsmálaráðherra þar sem mér var tilkynnt að staða mín yrði auglýst laus til umsóknar,“ sagði Jóhann í gær. „Að öðru leyti mun ég ekki tjá mig um þetta mál að svo stöddu.“

ATHUGASEMD VIÐ REKSTUR

Forsaga málsins er sú að dómsmálaráðherra gerði athugasemdir við að rekstur embættisins hefði farið fram úr fjárheimildum. Rekstraráætlun fyrir embættið árið 2008 var lögð fram í febrúar sl., en þar var gert ráð fyrir 210 milljóna viðbótarfjárveitingum. Ráðuneytið féllst ekki á forsendur rekstraráætlunarinnar og 4. mars fékk embættið sex daga til að koma með nýja áætlun.

Enginn botn fékkst í málið, þrátt fyrir fund Jóhanns og Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra með starfsmönnum. Og níu dögum síðar lagði dómsmálaráðherra til breytingar á skipan löggæslu-, öryggis- og tollgæslumála á Suðurnesjum. Í framhaldi af því óskaði Jóhann eftir viðræðum um starfslok við settan dómsmálaráðherra en skilaði ekki inn uppsögn. Ekki náðist samstaða í stjórnarflokkunum í vor um tillögur dómsmálaráðherra.

Jóhann var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli árið 1999 og síðan gerður að lögreglustjóra á Suðurnesjum árið 2007. Samkvæmt heimildum hyggst hann ekki sækja um starfið þegar það verður auglýst.

FARIÐ AÐ LÖGUM OG REGLUM

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að verið sé að auglýsa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjun og í því tilliti sé farið eftir lögum og reglum um að tilkynna verði fyrirætlunina með 6 mánaða fyrirvara. Spurður hvort þetta sé óvenjulegt, segir hann að spyrjandi verði að kanna það. 

21. september 2008 - Þegar Björn Bjarnason var menntamálaráðherra var hann með til skoðunar hvort setja ætti þá verklagsreglu að auglýsa ávallt laus til umsóknar embætti forstöðumanna að liðnum tímabundnum skipunartíma þeirra. Þetta sagði Björn í ræðu á fundi Félags forstöðumanna ríkisstofnana árið 2002. Hann kynnti sjónarmið sín innan ríkisstjórnarinnar en hafði ekki erindi sem erfiði, að fengnu áliti þáverandi fjármálaráðherra. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að hann hefur nú ákveðið að auglýsa lausa stöðu lögreglustjórans á Suðurnesjum í apríl nk. en þá lýkur fimm ára skipunartíma núverandi lögreglustjóra þar.

Samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Björnssyni, skrifstofustjóra starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, er afskaplega sjaldgæft að auglýstar séu stöður áður en sá skipunartími rennur út, en hann getur ekki staðfest að ákvörðun Björns sé einsdæmi.

EKKERT ÓEÐLILEGT VIÐ ÞETTA

 Í 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins segir að tilkynna skuli eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími viðkomandi embættismanns rennur út, hvort embættið verður auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartíminn sjálfkrafa um fimm ár. Gunnar segir allan gang á því hvernig ráðuneytin hagi sínum málum hvað þetta ákvæði varðar. Hjá sumum þeirra er hálfgert „viðvörunarkerfi“, þ.e. að ráðherrum er gert viðvart um að skipunartíma embættismanns fari að ljúka. „Þannig að ef þeir vilja skoða það, þá geta þeir það. En sumir eru ekki með neitt svona. Framkvæmdin er því jafnfjölbreytt og ráðuneytin eru mörg,“ segir Gunnar.

Í frétt Morgunblaðsins í gær um stöðu lögreglustjórans var haft eftir dómsmálaráðherra, að verið væri að auglýsa stöðu sýslumannsins á Suðurnesjum. Þar átti að standa lögreglustjórans á Suðurnesjum, og er Björn beðinn afsökunar.

Í tölvubréfi til Morgunblaðsins segir Björn eðlilegt að auglýsa embættið og tiltekur tvær ástæður. „Með því að sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli var aflagt gjörbreyttist embættið, þar á meðal kjör þess, sem gegnir því,“ segir Björn og einnig: „Ég hef boðað enn frekari breytingar á embættinu, það er aðskilnað löggæslu, tollgæslu og öryggisgæslu við flug. Sé ástæða til að auglýsa embætti samkvæmt starfsmannalögum á það við í þessu tilviki og í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við það.“

Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, segir Jóhann R. Benediktsson hafa lyft grettistaki í málefnum tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. „Við höfum verið mjög ánægðir undir hans stjórn og stoltir af þeim afrekum sem við höfum náð.“ Hann tekur hins vegar fram að ákvörðunin sé á ábyrgð ráðherrans, og vill því lítið tjá sig um hana.

23. september 2008 - „Við sögðum allan tímann að það væri mjög varhugavert vegna þess að með þessu móti væri verið að setja menn í lykilstöðum undir duttlungavald yfirvalda. Með þessu væri hægt að losa sig við þá með auðveldum hætti einfaldlega með því að láta ráðningartímann renna sitt skeið á enda,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og þingmaður Vinstri grænna, um ákvæði í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna um fimm ára skipunartíma þeirra.

Jóhanni R. Benediktssyni, lögreglustjóranum á Suðurnesjum, var fyrr í þessum mánuði tilkynnt að starf hans verði auglýst þrátt fyrir að hann hafi viljað gegna því áfram.

Stjórn Lögreglufélags Suðurnesja hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun dómsmálaráðherra að auglýsa stöðuna. Orðrétt segir að ákvörðunin eigi sér „engin fordæmi í stjórnsýslunni og felur í sér ekkert annað en uppsögn.“

Ögmundur segir að lögin hafi sætt miklum mótmælum BSRB allt frá því að þau voru sett, og þá sérstaklega ákvæðið um fimm ára ráðninguna. „Við lítum svo á að um ráðningar þessara manna eigi að gilda sömu reglur og aðra. Ef þeir gerast sekir eða brotlegir í starfi þá eru þeir látnir víkja. En hitt að það sé hægt að láta starfið renna út í einskonar tímaglasi tel ég vera mjög varhugavert.“

Hann segist þó skilja ákveðin rök sem sett voru fram fyrir ákvæðinu en að á því séu líka vankantar sem verði að taka tillit til. „Það eru ákveðin rök fyrir að reyna að tryggja gegnumstreymi svo stjórnendur séu ekki slímfastir í embættum ævilangt. Hins vegar eru vankantar sem fylgja þessu og þá sérstaklega þegar það verður uppi á teningnum að einstaklingar sem á einhvern hátt hafa reynst yfirvaldinu óþægilegir séu látnir fjara úr fyrirhafnarlaust.

23. september 2008 - Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur boðað alla starfsmenn embættisins til fundar síðdegis á morgun. Í samtali við Víkurfréttir vildi Jóhann ekki tjá sig um efni fundarins. Hann játaði því hins vegar aðspurður hvort stórra tíðinda yrði að vænta af fundinum.

Á vef Víkurfrétta kemur fram að greina megi mikla undirliggjandi óánægju um öll Suðurnesin vegna þeirrar ákvörðunar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, að auglýsa stöðu lögreglustjóra eftir að skipunartími hans rennur út næsta vor. 

„Vel yfir 800 einstaklingar hafa lýst yfir stuðningi sínum við Jóhann á Facebook en þar segir:  „Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ætlar nú að losa sig við Jóhann R. Benediktsson úr starfi lögreglustjóra á Suðurnesjum vegna eigin geðþótta. Jóhann hefur í alla staði staðið sig vel í starfi og er afskaplega vel þokkaður af starfsmönnum embættisins og íbúum Suðurnesja,“ að því er segir á vef Víkurfrétta.

24. september 2008 - „Þetta var mjög erfiður fundur,“ sagði Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóri á Suðurnesjum að loknum fjölmennum fundi með starfsfólki sínu þar sem hann tilkynnti að hann myndi hætta sem lögreglustjóri 1. október og þrír stjórnendur með honum.

Jóhann sagðist hafa rakið fyrir samstarfsfólki sínu samskiptin við dómsmálaráðuneytið og kvað starfsfólkið gera sér grein fyrir eðli málsins. „Við fáum ekki sanngjarna málsmeðferð og ég held að landsmenn allir hafi séð að skýringar dómsmálaráðherra standast enga skoðun,“ sagði Jóhann og vísaði til skýringa ráðherra á þeirri ákvörðun að auglýsa stöðu lögreglustjórans. „Ég held að allra vegna, þá verði ég að víkja og ég vil að ráðherra fái tækifæri til að koma að þeim manni sem getur framfylgt stefnu hans í málefnum þessa embættis. Ég vona að það verði einhver góður maður,“ sagði Jóhann og útilokaði að hann myndi sjálfur sækja um stöðuna. „Það kemur ekki til greina,“ sagði hann.

Sagði hann rás atburða hafa verið mjög hraða að undanförnu og ekki væri hægt að svara því hvað tæki nú við hjá sér. Hann sagðist skilja við embættið á mjög erfiðum tíma. „Auðvitað óskar þess enginn að ganga úr embættinu við þessar aðstæður,“ sagði hann.

Þeir sem ganga úr embættinu með Jóhanni eru Eyjólfur Kristjánsson, staðgengill hans, Guðni Geir Jónsson fjármálastjóri og Ásgeir J. Ásgeirsson starfsmannastjóri.

Að sögn Ásgeirs voru allir samstarfsmenn á fundinum mjög slegnir yfir tíðindum dagsins þótt samstaða og stuðningur hefðu einkennt fundinn. „Þetta er afar sorglegt en í ljósi aðdragandans, þá var þetta óhjákvæmilegt,“ sagði hann. Brotthvarf Ásgeirs sjálfs á sér nokkurn aðdraganda, en honum bauðst annað starf „og það lá beinast við að þiggja það þegar þessi staða var komin upp hjá embættinu. Mann langar ekki til að vinna þarna lengur.“

Einn lögregluþjónn sem sat fundinn var óviss um hvort hann mundi halda áfram hjá lögreglunni eftir brotthvarf Jóhanns. „Það hefur verið mjög gott að vinna undir stjórn Jóhanns og hann er líklega besti stjórnandi sem hægt er að hugsa sér,“ sagði hann.

Annar lögregluþjónn sagði illmögulegt að horfa á rás atburða undanfarin misseri án þess að komast að þeirri niðurstöðu að lögreglustjórinn hefði verið lagður í einelti af dómsmálaráðuneytinu. „Ákvörðun ráðherra um að auglýsa embættið mun ekki eiga sér nein fordæmi – en þó kemur hún ekki á óvart í augum þeirra sem til þekkja,“ sagði hann.

24. september 2008 - Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að skýr efnisleg rök hafi verið færð fyrir því af sinni hálfu að auglýsa lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum laust og hann hafi ekki búist við þessum viðbrögðum Jóhanns R. Benediktssonar.

„Að lögreglustjóri bregðist við á þann veg, sem fyrir liggur, kom mér á óvart,“ segir Björn. „Ég óska honum og samstarfsmönnum hans, sem nú kveðja embættið, velfarnaðar og þakka þeim samfylgdina síðan 1. janúar 2007 þegar embættið færðist frá utanríkisráðuneyti undir dóms- og kirkjumálaráðuneyti.“

„Nú blasir við að fylla skörð þeirra, sem kveðja, og tryggja framtíð hins mikilvæga starfs, sem unnið er af lögreglu, tollvörðum og öryggisvörðum við embættið,“ segir Björn. Í því efni þurfi í senn að taka á stjórnsýslulegum og fjárhagslegum þáttum með skýr framtíðarmarkmið í huga og í samræmi við eðlilega verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.

mbl.is

Innlent »

Hagvaxtarstefnan að „líða undir lok“

17:28 „Sú hagfræðikenning sem hefur mótað efnahagsstefnu 20. aldarinnar, efnahagsstefna sem byggir fyrst og fremst á því að halda áfram hagvexti út í eitt, sú efnahagsstefna er að líða undir lok.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir á fundi VG og verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar um kjara­mál fyrr í dag. Meira »

Styrktartónleikar fyrir Söndru

17:25 Stuðlabandið, Stebbi Hilmars, Páll Rózinkrans, Ívar Daníelsson, Hlynur Ben, Úlfur úlfur og fjölmargir tónlistarmenn munu koma fram á styrktartónleikum miðvikudaginn þann 21. nóvember kl. 20:00. Meira »

Vill nýta undanþágur frá orkupakkanum

17:08 „Er ekki leiðin að nýta þær undanþágur sem við gerðum upphaflega?“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, um innleiðingu þriðja orkupakkans. Meira »

Koma þurfi á fót upplýsingamiðstöð

17:04 Auka þarf upplýsingaflæði og tryggja að innflytjendur fái fréttir af innlendum vettvangi, til að efla lýðræðisþátttöku fólks af erlendum uppruna. Þetta er meðal þess sem fram kom í umræðum á fjölmenningarþingi Reykjavíkurborgar, sem haldið var í fimmta sinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Meira »

Öllu innanlandsflugi aflýst

16:39 Öllu innanlandsflugi hefur verið aflýst í dag vegna veðurs. Samkvæmt upplýsingum frá Air Iceland Connect þá ættu aflýstar flugferðir ekki að hafa nein áhrif á flugdagskrá morgundagsins. Vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að veðrinu muni slota í nótt. Meira »

„Skaðlegar staðalímyndir“ í bók Birgittu

16:26 Sólveig Auðar Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, birti í morgun ljósmynd af síðu í nýrri barnabók eftir Birgittu Haukdal, þar sem hún gagnrýnir „skaðlegar staðalímyndir“ af starfi hjúkrunarfræðinga sem sýnd er í bókinni. Meira »

Raskanir hafa keðjuverkandi áhrif

15:31 Ellefu af tólf landgöngubrúm á Keflavíkurflugvelli voru teknar í notkun á nýjan leik klukkan eitt í dag þegar lægði nægilega mikið. Farþegar í þrem­ur flug­vél­um sem lentu á Kefla­vík­ur­flug­velli í morg­un höfðu þá beðið í nokkrar klukkustundir eftir að kom­ast úr vél­un­um vegna vonskuveðurs. Meira »

Stödd í „grafalvarlegum stéttaátökum“

15:20 „Við ætlum vissulega að semja um krónur og aura, en við ætlum líka að semja um lífsskilyrði í þeirra víðasta skilningi,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar á fundi Vinstri grænna og verkalýðshreyfingarinnar um kjaramál nú í hádeginu. Meira »

Húsið að mestu leyti ónýtt

14:04 Húsnæði við Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði er nánast alveg ónýtt eftir að eldur kom þar upp í gærkvöldi, að sögn Eyþórs Leifssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. „Það er spurning með þessa steyptu veggi, hvort þeir geti haldið sér, en húsið er annars að mestu ónýtt og þetta er mikið eignatjón.“ Meira »

Kannski sem betur fer ég

13:25 María Dungal framkvæmdastjóri er með nýrnabilun á lokastigi. Hér heima gekk hún á milli lækna og var sagt að taka vítamín og hætta að ímynda sér hluti en yfirþyrmandi þreyta hefur umturnað lífi hennar. 11 manns hafa boðið Maríu nýra án þess að það hafi gengið. Meira »

Kastar handsprengjum á ríkisstjórnarheimilið

13:19 Miðflokkurinn er að reyna að kasta handsprengjum inn á ríkisstjórnarheimilið að mati Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar. Sagði Logi í þættinum Víglínunni á Stöð 2 að afstaða Miðflokksins til þriðja orkupakkans væri poppúlísk. Málið væri stormur í vatnsglasi. Meira »

„Erfitt að kveðja skip eins og Vilhelm“

12:54 Landað var úr Vilhelm Þorsteinssyni EA 570 í Neskaupstað í vikunni og var það síðasta löndun skipsins í íslenskri höfn undir merkjum Samherja. Skipið hefur verið selt til Rússlands, en kom nýtt til landsins árið 2000. Meira »

Vita lítið um umfang tjónsins

12:50 Eigendur neðri hæðar Hvaleyrarbrautar 39, Dverghamrar ehf., hafa lítið fengið að vita um stöðu mála eftir að eldur kom upp á efri hæð hússins í gærkvöldi. Meira »

Ætlaði að redda uppeldinu

12:15 Það er ekki á hverjum degi sem systur eru á sama tíma með bók í jólabókaflóðinu. Júlía Margrét og Kamilla Einarsdætur koma úr bókelskri rithöfundafjölskyldu og eru helstu stuðningsmenn hvor annarrar. Meira »

Skorti ekki vatn heldur þrýsting

11:50 Vatnsveita Hafnarfjarðar þurfti á auka þrýsting að halda vegna slökkvistarfs á Hvaleyrarbraut en þar varð stórbruni í gærkvöldi. Jón Guðmundsson, vaktmaður hjá Vatnsveitu Hafnarfjarðar, segir að vatnsveitan hafi ekki þurft á meira vatni að halda eins og kom fram í frétt Vísis í nótt. Meira »

Slitlag flettist af á Snæfellsnesi

11:37 Slitlag er tekið að flettast af vegi á Snæfellsnesi að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar, en verulega hvasst er nú á Suðvestur- og Vesturlandi. Varar Vegagerðin sérstaklega við veðri í Búlandshöfðanum, þar sem skemmdir hafa orðið á slitlagi vegna foks. Meira »

Það var nánast ekkert eftir

11:00 „Við höfðum miklar áhyggjur af eldinum. Sem betur fer þá stóð vindurinn í rétta átt, út á sjó,“ segir Helga Guðmundsdóttir eigandi Crossfit Hafnarfjarðar sem er í næsta húsi við Hvaleyrarbraut 39 sem brann í nótt. Meira »

Farþegar bíða þess að komast úr vélum

10:37 Tafir hafa orðið á flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli nú í morgun vegna veðurs. Farþegar í þremur flugvélum frá British Airwaves, EasyJet og Delta sem lentu á Keflavíkurflugvelli á níunda tímanum bíða þess enn að komast úr vélunum. Þetta segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. Meira »

Elsta íslenska álkan 31 árs

10:15 Álka sem fannst við Bjargtanga á Látrabjargi í júní 2016 reyndist vera elsta álka sem fundist hefur hér við land eða að minnsta kosti 31 árs. Hún var hin sprækasta þegar henni var sleppt og gæti því verið orðin 33 ára. Meira »
HARÐVIÐUR TIL HÚSBYGGINGA
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
STOFUSKÁPUR
TIL SÖLU NÝLEGUR HVÍTLAKKAÐUR STOFUSKÁPUR MEÐ GLERHILLUM. STÆRÐ: B=78, D=41 H=9...
Ertu komin í saumaskap ?
Nýjar og notaðar saumavélar í úrvali. Nýjar vélar með 3 ára ábyrgð. Notaðar véla...
Snjómokstur og Söltun GÍH
Vetrarþjónusta allan sólarhringinn. Vöktun í boði fyrir fyrirtæki og húsfélög. H...