Norska aðferðin heppnaðist 100%

Bíllinn eftir áreksturinn.
Bíllinn eftir áreksturinn. mbl.is Júlíus

Íslenskir slökkviliðsmenn beittu svonefndri norskri aðferð við að toga í sundur jeppa á grind í fyrsta sinn í dag og gekk hún eins og best verður á kosið.

Norska aðferðin byggist á því að nota spil tækjabíla til að toga viðkomandi bíl í sundur í þeim tilgangi að ná sem fyrst til ökumanns eða farþega í bílnum eftir slys. Árni Ómar Árnason, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir að aðferðinni hafi verið beitt hérlendis á fólksbílum en ekki fyrr á grindarbíl.

Fyrir um tveimur vikum varð harður árekstur á Breiðholtsbraut þar sem tveir jeppar lentu saman. Engin slys urðu á fólki, en ef einhver hefði setið í framsætinu hægra megin í öðrum bílnum er ljóst að mjög illa hefði getað farið.

Árni Ómar segir að haft hafi verið samband við Tryggingamiðstöðina í þeim tilgangi að fá að nota norsku aðferðina á bílinn. TM hafi gefið slökkviliðinu bílinn og æfingin hafi miðast við það að einhver væri í framsætinu. „Aðferðin gekk upp á 10,“ segir Árni Ómar.  

Bíllinn eftir að norsku aðferðinni hafði verið beitt.
Bíllinn eftir að norsku aðferðinni hafði verið beitt. mbl.is Júlíus
mbl.is