Kallar á endurskoðun á leikreglum fjármálakerfisins

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, að atburðir síðustu daga kalli á endurskoðun á leikreglum fjármálakerfisins, svo sem á krosseignartengslum, eignarhaldi fjármálastofnana í óskyldum rekstri og réttmæti kaupréttarsamninga og ofurlauna í fjármálageiranum.

„Útrás fjármálafyrirtækja virðist hafa einkennst meira af kappi en forsjá og kaupréttarsamningar hafa vafalaust átt sinn þátt í því að gera stjórnendur of áhættusækna – græðgin réð því miður för og með ofurkjörunum slitu menn sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Af því verða þeir að læra," sagði Jóhanna.

Hún sagði, að vaxtalækkunarferli yrði að hefjast til að verja fjárhag og velferð heimila og fyrirtækja þessa lands og berjast fyrir hag þeirra sem höllustum fæti standa. Þá bæri fjármálastofnunum skylda til að koma mjög sterkt inn í þann björgunarleiðangur sem gæti verið  framundan til að bjarga heimilum og fyrirtækjum.

„Björgunarleiðangrar eiga ekki bara að snúa að bönkum í þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin stendur nú í. Þeir eiga fyrst og fremst að snúa að fólkinu í landinu. Það er mikilvægt að allir lánadrottnar, hvort sem það eru bankar eða opinberir aðilar, setjist yfir það hvernig hægt sé að auðvelda skuldugum heimilum lausn sinna mála. Heimilum sem lenda nú tímabundið í vanskilum eða miklum greiðsluerfiðleikum. Þar er ekki boðlegt eins og haft var eftir einum bankastjóranna að segja að nú sé hver sinnar gæfu smiður," sagði Jóhanna.

Hún sagðist hafa falið Íbúðalánasjóði að skoða hvort hægt sé, að minnsta kosti tímabundið, að rýmka þær heimildir sem sjóðurinn hefur yfir að ráða fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.

Þá sagði hún það einnig mikið áhyggjuefni ef það verði að veruleika að einhverjar bankastofnanir nýti endurskoðunarákvæði í núverandi lánasamningum til að hækka vexti verulega og kollvarpa þannig fjárhag margra heimila.

„Í núverandi ástandi má jafna því við einokunarþvingun, enda hvergi í annað skjól fyrir lántakendur að leita þar sem allir bankar hafa nú nánast lokað á húsnæðislán. Í slíku ástandi hlýtur að koma til greina að Íbúðalánasjóður verði það skjól sem lántakendur þurfa á að halda og opni þeim dyr til endurfjármögnunar, ætli bankarnir að gera alvöru úr þeim möguleika að margfalda vaxtabyrðina hjá lántakendum," sagði Jóhanna.

Hún sagðist gera sér fyllilega grein fyrir því að margir horfist nú í augu við mikla fjárhagslega erfiðleika. „Samhent getur íslenska þjóðin undir forystu þessarar ríkisstjórnar og með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins siglt örugg í gegnum þann ólgusjó sem við erum í ásamt ótal öðrum þjóðum um allan heim," sagði Jóhanna Sigurðarsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert