Það á að boða okkur til fundar og læsa okkur inni

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

„Á morgun á að boða saman til fundar okkur forustumenn stjórnmálanna, forustumenn fjármálalífsins, verkalýðsforustu og atvinnurekendur, mikilvægustu heildarsamtök og læsa okkur inni," sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í umræðum á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.

„Við þurfum ekki Laugardalshöllina, hið sögufræga hús Höfði nægir. Þetta eru nokkrir tugir karla og kvenna, því þarna eiga ekki bara að vera jakkafataklæddir karlar, þarna þurfa að vera margar hagsýnar húsmæður, konur, sem hefðu betur ráðið meiru um okkar mál, við höfum ekki staðið okkur svo vel karlarnir.

Og þarna á þessi hópur að sitja og koma ekki út fyrr en búið er að ná samkomulagi um það hvernig þjóðarbúið verður unnið úr þessum erfiðleikum. Dyrnar verða læstar þar til kominn er hvítur reykur," sagði Steingrímur.

Hann sagði að Íslendingar  væru staddir í versta ólgusjó efnahags- og þjóðmálaupplausnar sem þeir hefðu lent í a.m.k. um áratuga skeið ef ekki í raun og veru nokkru sinni síðan þeir endurheimtu fullveldi og sjálfstæði.  Nú yrði að leysa  gjaldeyriskreppuna og stöðva fall krónunnar því ella verði gjaldeyrisviðskiptum sjálfhætt eftir nokkra daga. Þá verði að  fullvissa almenning um að innistæður landsmanna í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum verði tryggðar, ná hratt niður verðbólgu og lækka vexti og veita fé í umferð þannig að almenningur, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög fái eðlilega bankaþjónustu og hjól samfélagsins og þjóðarbúskaparins geti snúist áfram.

„Við verðum að sameinast um að verja lífskjörin og stöðu heimilanna eins og nokkur kostur er og afstýra því að fólk fari umvörpum að missa húsin sín og komast í þrot. Í því efni verðum við að beina þeim mætti sem við höfum til þeirra sem standa höllustum fæti. Þeir sem betur eru settir verða að sjá um sig. Tekjulágt fólk, ungt skuldsett fólk, einstæðir foreldrar, aldraðir og öryrkjar sem hafa einan saman lífeyririnn verða að vera í forgagni við aðstæður sem þessar.

Og síðast en ekki síst verðum við að slá óvígri skjaldborg um velferðarþjónustuna. Velferðarkerfið er aldrei dýrmætara en þegar  erfiðir tímar ganga í garð," sagði Steingrímur, sem sagði að lítið hefði verið um bros þegar þingmenn komu saman í gær.

„En, við skulum ekki missa kjarkinn. Ég segi við ykkur góðir landsmenn þar sem þið sitjið og hlustið eða horfið. Ekki missa móðinn. Ekki gefast upp. Við förum í gegnum þetta saman. Það er líka þannig að margt mun leggjast með okkur," sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert