Boðar aðgerðir til að auka lausafé

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson.

Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra, segir við fréttavef Bloomberg, að íslensk stjórnvöld vinni nú að aðgerðum til að auka lausafé í fjármálakerfinu. „Það er augljóst, ef litið er til markaðanna, að slíkt þarf að gerast fljótt," er haft eftir Tryggva Þór. 

Afar lítil viðskipti eru nú með íslensku krónuna á millibankamarkaði og gengið hefur nánast staðið í stað í dag. Bloomberg hefur eftir Sunil Kapadia, hagfræðingi hjá UBS í Lundúnum, að enginn peningamarkaður sé þessa stundina og íslenski seðlabankinn verði að auka laust fé á markaði.  

Tryggvi Þór vildi í samtali við Bloomberg ekki útlista í hverju væntanlegar aðgerðir fælust. Hann útilokaði hins vegar að tekið yrði lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, IMF. 

„Féð sem IMF gæti útvegað yrði lítið. Við erum iðnvætt ríki, það fimmta ríkasta í heimi miðað við landsframleiðslu á mann. Við vinnum nú að ýmsum aðgerðum til að auka lausafé í hagkerfinu og það mun koma í ljós innan skamms en IMF er ekki kostur."

Þá er haft eftir Tryggva Þór að ekki sé líklegt að íslenska ríkið þurfi að koma fleiri bönkum til aðstoðar en Glitni.  

„Aðgerðirnar vegna Glitnis voru nauðsynlegar. Hinir bankarnir standa mun betur og við teljum ekki að við þurfum að fara inn í þá banka. En auðvitað geta hlutirnir breyst hratt þessa dagana." 

Seðlabankinn aðgerðarlítill  

Bloomberg hefur einnig eftir sérfræðingum í Lundúnum, að þeim þyki íslenski seðlabankinn vera aðgerðarlítill á sama tíma og seðlabankar í Bandaríkjunum og Evrópu dæla fé inn í fjármálakerfið til að aðstoða banka.

„Allir eru í raun að bíða eftir því að Seðlabankinn geri eitthvað," segir Beat Siegenthaler, sérfræðingur hjá TD Securities í Lundúnum. „Þetta er eini seðlabankinn í heiminum, sem ekki hefur gripið til aðgerða með einhverjum hætti til að styðja við fjármálakerfi sitt. Tilfinningin er sú núna, að hann sé hvergi, sé ekki nálægur."

Siegenthaler segir að gengislækkun krónunnar muni væntanlega leiða til þess að verðbólga verði 20% en verðbólgumarkmið seðlabankans sé 2,5%.  

„Margir miðlarar segjast aldrei hafa séð gjaldmiðil tapa jafn miklu á jafn stuttum tíma og án þess að seðlabankinn segi neitt eða reyni að grípa inn í með stuðningsaðgerðum," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert