Lífeyrissjóðir komi að lausn

Talað er um að lífeyrissjóðir flytji erlendar eignir sínar til …
Talað er um að lífeyrissjóðir flytji erlendar eignir sínar til Íslands.

Fulltrúar lífeyrissjóðanna áttu fyrir hádegi fund með þremur ráðherrum ríkisstjórnarinnar, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, og Össuri Skarphéðinssyni, iðnaðarráðherra. Á þeim fundi lögðu ráðherrarnir fyrir fulltrúa lífeyrissjóðanna hvort þeir væru tilbúnir að færa hluta af erlendum fjárfestingum sjóðanna yfir í íslenskar krónur.

Forsvarsmenn sjóðanna svöruðu erindi ríkisstjórnarinnar hvorki játandi né neitandi en lofuðu að skoða málið áfram. Nú síðdegis átti svo að halda fund með fulltrúum nokkurra stærstu lífeyrissjóðanna og efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar við útfærslu þessari hugmynd, sem yrði þá einn hluti af væntanlegum aðgerðum stjórnvalda vegna efnahagsvandans.

Ekki hefur verið ákveðið hversu stóran hluta af eignum lífeyrissjóðanna erlendis yrði unnt að flytja inn í hagkerfið. Samhliða þessum viðræðum standa nú yfir viðræður ASÍ og Samtaka atvinnulífisins um mögulega þátttöku aðila vinnumarkaðarins í aðgerðunum.

Samkvæmt  upplýsingum mbl.is er það flókið viðfangsefni fyrir lífeyrissjóðina að færa hluta eigna sinna til landsins. Kynna þarf hugmyndina fyrir um það bil 30 lífeyrissjóðum og bera þarf hana undir samþykki allra stjórna lífeyrissjóðanna.

Eignir lífeyrissjóðanna erlendis eru um 500 milljarðar króna. Stærstur hluti þeirra er bundinn í sjóðum en þó sumar eignir sjóðanna erlendis séu lausar með skömmum fyrirvara eru aðrar bundnar í fjárfestingum.

Að mati heimildarmanna er framkvæmanlegt með tiltölulega skjótum hætti að hrinda þessu í framkvæmd en fulltrúar lífeyrissjóðanna og samtaka á vinnumarkaði vilja fyrst sjá til hvaða aðgerða ríkisstjórnin ætlar að grípa og hvort fjárfestingarfélög og fjármálastofnanir taka þátt í þeim aðgerðum sem eru í undirbúningi.

Ekki liggja fyrir skýrar tillögur stjórnvalda um hversu háar fjárhæðir yrði að ræða og hvað lífeyrissjóðirnir fengju í staðinn fyrir að leysa inn stóran hluta af erlendu eignasafni sínu. 

Búist er við miklum fundarhöldum yfir helgina.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert