Mörg hundruð milljarðar vegna Icesave

Halldór J. Kristjánsson bankastjóri Landsbankans segir að yfirtaka bankans hafi verið gerð í fullu samráði við bankaráð Landsbankans sem telji viðskiptavinum betur borgið í skjóli nýrra laga. Hann hvetur því fólk til að halda ró sinni og treysta því að allt verði í lagi. Hann segir atburðina í Bandaríkjunum og ríkisvæðingu Glitnis að hluta til ástæðu þess að svona er komið fyrir bankanum.

 Hann vill ekki svara því hvort Icesave í Bretlandi hafi riðið baggamuninn í falli Landsbankans en það hafi ekki hjálpað til þegar viðskiptavinir í Bretlandi vildu taka út fé sitt í stórum stíl eftir fréttir af ríkisvæðingu Glitnis. Viðskiptavinir Icesave í Bretlandi eru 200.000 talsins en innistæður þeirra eru um fimm milljarðar punda.  Fram kom á sínum tíma hjá talsmanni Icesave í Bretlandi að þrjár og hálf milljón á hverri kennitölu væru tryggð af íslenska tryggingasjóðnum en það sem eftir standi eigi að vera tryggt í Bretlandi. Ljóst er að þarna eru kröfur upp á mörg hundruð milljarða sem gætu verið gerðar á íslenska tryggingasjóðinn.

Halldór J. Kristjánsson vísaði á samstarf íslenska og breska tryggingasjóðinn en sagði að stjórnvöld yrðu að öðru leyti að svara fyrir þetta. Landsbankinn ætti miklar eiginir á móti þessum skuldbindingum og eins væru ábyrgðir vegna slíkra sjóða álitamál um alla Evrópu um þessar mundir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert