Krefjast þess að menn verði dregnir til ábyrgðar

Femínistafélag Íslands krefst þess að valdhafar landsins dragi hlutaðeigandi til ábyrgðar vegna núverandi stöðu efnahagsmála. Þá segir félagið ljóst að þeir karlar sem hingað til hafi haldið um stjórnartaumana séu ekki hæfir til starfans.

Þetta kemur fram í ályktun sem félagið hefur sent frá sér, en hún er eftirfarandi:

„Ísland riðar á barmi gjaldþrots. Það er ljóst að hugmyndakerfi kapítalismans og frjálshyggjunnar eru fallinn. Staða Íslands og álfunnar allrar sannar að ekkert hagkerfi þolir óhefta þenslu. Það er einnig ljóst að þeir karlar sem hingað til hafa haldið um stjórnartaumana eru ekki hæfir til starfans.

Fjarvera kvenna í efnahagsmálum hefur lengi verið áberandi, enda hafa áherslur kvenna ekki þótt eftirsóknarverðar. Áhættumeðvitund, áherslur á langtímaávinning og samfélagslegan ávinning og gagnsæi þóttu of hamlandi viðhorf á útrásartíma. Karllæg áhættusækni, oft kennd við víkinga, með skammtímaávinning fyrir einstaklinga að markmiði var það sem gilti. Þessi sömu gildi hafa nú valdið versta efnahagsástandi í manna minnum.

Femínistafélag Íslands krefst þess að valdhafar landsins að dragi hlutaðeigandi til ábyrgðar vegna núverandi stöðu efnahagsmála. Til þess að raunhæf lausn finnist á vandanum þarf að greina og fjalla um orsakirnar. Aðeins útfrá ítarlegri könnun á orsök og afleiðingu er hægt að finna rétt svör.

Þörfin fyrir að uppfylla alþjóðasamninga um samþættingu kynjasjónarmiða hefur aldrei verið meiri. Forræði hinna karllægu gilda með gróðasjónarmið, fífldirfsku, eiginhagsmunasemi að leiðarljósi verður að linna enda eru þau komin í þrot. Sú uppbygging sem framundan er verður að vera á forsendum og forræði beggja kynja. Virk þátttaka kvenna og kvenlægra gilda er forsenda þess að uppbyggingin geti orðið okkur öllum og komandi kynslóðum til heilla.

Reynslan sýnir að þau ríki sem notið hafa leiðsagnar kvenna í uppbyggingu eftir samfélagslegt hrun, standa betur en önnur. Í ljósi ofangreinds krefst Femínistafélag Ísland  þess að stjórnvöld og þjóðin öll opni fyrir nýja hugmyndafræði, áhættumeðvitaða stjórnunarhætti og skipi nýtt fólk til stefnumótunar, konur jafnt sem karla.“


mbl.is

Bloggað um fréttina