Súrt að svona fór

Viðskiptavinir ganga inn í Landsbankann í gær.
Viðskiptavinir ganga inn í Landsbankann í gær. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur verið erfitt ástand hjá íslenskum bönkum undanfarin misseri. Þetta fór svona og það er ekkert við því að gera. Það er súrt eins og gefur að skilja,“ segir Sigurjón Árnason, annar tveggja bankastjóra Landsbankans.

Hann segir stöðu Landsbankans hafa versnað mikið eftir að íslenska ríkið gerði samkomulag um að taka yfir 75 prósenta hlut Glitnis. „Staðan versnaði mjög hratt eftir að þetta kom upp með Glitni. Á föstudeginum var orðið ljóst að bankinn þyrfti hjálp frá ríkinu og þangað var leitað. En við gátum ekki fengið hjálp frá gjaldeyrisforða Seðlabankans þrátt fyrir að þangað hafi Kaupþing getað sótt hjálp,“ segir Sigurjón.

Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Landsbankans í gærmorgun eftir langan fund með forsvarsmönnum bankans um nóttina. Sigurjón og Halldór J. Kristjánsson stýra bankanum áfram. mh

mbl.is