Jafnræði milli lántakenda

Greiningardeild Kaupþings veltir því fyrir sér, að ef gengistryggð lán verði fryst, eins og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, sagði í dag að verið sé að athuga, vakni einnig sú spurning hvort ríkisstjórnin hyggist sömuleiðis bæta upp handhöfum verðtryggða lána þann skaða sem gengisfall krónunnar hefur í för með sér.

„Ljóst er að gríðarleg verðbólga er framundan á næstu mánuðum að öllu óbreyttu vegna gengisveikingar krónunnar. Því kann að vakna sú spurning hvort að ríkisstjórnin hyggist sömuleiðis bæta upp handhöfum verðtryggðra lána  þann skaða sem gengisveiking krónunnar hefur í för með sér – þar sem höfuðstóllinn hækkar samfara verðbólgu. Því má spyrja sig hvort að jafnræðis gæti að fullu milli lántakenda eða hvort komið verði sömuleiðis til móts við þá sem horfa nú fram hækkandi verðtryggð lán," segir í ½5 fréttum Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert