Segir sig úr bankaráði Seðlabankans

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur sagt sig úr bankaráði Seðlabankans og segist biðja þjóðina afsökunar á því að hafa ekki axlað sína ábyrgð fyrr. Segist hún einnig hvetja bankastjóra Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson, til að axla sína ábyrgð á mistökunum og segja af sér nú þegar.

Yfirlýsing Sigríðar Ingibjargar er eftirfarandi:

„Undanfarin ár, mánuði, vikur og daga hafa verið gerð alvarleg mistök í hagstjórn Íslands og stjórn fjármálakerfisins. Seðlabanki Íslands ber mikla ábyrgð á þeim mistökum. Nú er svo komið að íslenska hagkerfið er að hruni komið og munum við Íslendingar þurfa að byggja það upp á komandi árum og færa gríðarlegar fórnir.

Til að sem bestur friður náist um það uppbyggingarstarf sem framundan er tel ég mikilvægt að sátt ríki meðal þjóðarinnar um stjórn Seðlabankans. Það er mitt álit að til að svo geti orðið verði að skipta um bankastjórn í Seðlabanka Íslands. Ég hvet því bankastjóra Seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson, til að axla sína ábyrgð á mistökunum og segja af sér nú þegar. Sjálf mun ég tilkynna forseta Alþingis afsögn mína úr bankaráði Seðlabanka Íslands þegar í kvöld. Ég bið þjóðina afsökunar á því að hafa ekki axlað mína ábyrgð fyrr.
Virðingarfyllst

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur."

Á þessari stundu get ég ekki tjáð mig frekar um þetta mál.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert