Útvarpsviðtal lagði Kaupþing á hliðina

Gordon Brown og Alistair Darling.
Gordon Brown og Alistair Darling. Reuters

Í morgunútvarpi breska ríkisútvarpsins BBC, síðastliðinn miðvikudag, sagði Alistair Darling á blaðamannafundi, fjármálaráðherra Bretlands, að íslensk stjórnvöld ætluðu sér ekki að ábyrgjast innlánsreikninga 300 þúsund Breta upp á 450 til 500 milljarða króna. „Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá ætla þeir ekki að standa við skuldbindingar sínar,“ sagði Darling um Íslendinga. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, bætti svo um betur og sagði ljóst að Bretar myndu leita réttar síns ef íslensk stjórnvöld ábyrgðust ekki innistæður á Icesave-reikningum Landsbankans. Á þessum tíma voru milljónir Breta að hlusta eins og alltaf á þessum tíma dags.

Innistæður hjá Icesave voru með hefðbundinni tryggingu samkvæmt íslenskum lögum, 21 þúsund evrur eða um þrjár milljónir króna. Til viðbótar er svo 50 þúsund punda trygging, jafnvirði ríflega 10 milljóna króna, frá breskum stjórnvöldum.

Dýrkeyptur misskilningur

Eftir viðtalið við Darling varð ekki aftur snúið. Viðskiptavinir Icesave fylltust hræðslu og ótta. Áhrifin á starfsemi dótturfyrirtækis Kaupþings í London, Singer and Friedlander, urðu strax mikil. Fólk hóf í kjölfar viðtalsins við Darling að taka peninga út af reikningum Kaupþing Edge. Ólíkt fyrirkomulaginu hjá Icesave þá ábyrgist breska ríkið innlánsreikninga Kaupþing Edge.

Orðrómurinn á markaðnum, um að íslensku innlánsreikningarnir væru ekki traustir, hafði gríðarlega hröð áhrif á Kaupþing. Fjárhæðir streymdu út af innlánsreikningum Kaupþings í Bretlandi, þrátt fyrir að staða Landsbankans og Kaupþings væri ekki sambærileg. Nema að því leyti að báðir bankarnir eru íslenskir.

Strax var byrjað á því að selja eignir hratt, til þess að reyna að bjarga Kaupþingi. Starfsmenn bankans unnu baki brotnu að því að reyna að bjarga bankanum, bæði í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni og í London.

Eftir því sem leið á daginn varð ljóst að orð Darlings og Browns höfðu skaðað Kaupþing, og íslenska hagkerfið í heild, of mikið.

Fjármálaeftirlitið hóf afskipti af málefnum Kaupþings seinni partinn í gær og tók skilanefnd yfir starfsemi bankans um nóttina eftir samræður milli stjórnenda bankans – með Hreiðar Má Sigurðsson forstjóra, Ingólf Helgason framkvæmdastjóra og Sigurð Einarsson stjórnarformann fremsta í flokki – og fulltrúa Fjármálaeftirlitsins.

Eftir „mikla baráttu“ við að bjarga bankanum, eins og einn viðmælenda 24 stunda komst að orði, urðu stjórnendur bankans að játa sig sigraða.

Deilt um ábyrgð

Fjármálaeftirlitið í Bretlandi tók yfir Icesave-reikninga í Bretlandi á grundvelli laga sem beitt er gegn hryðjuverkamönnum. Þetta hörmuðu Geir H. Haarde forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra á blaðamannafundi í gær. Eignirnar voru frystar og fara bresk stjórnvöld nú alfarið með yfirráð þeirra.

Eftir að ljóst varð að orð bresku ráðherranna felldu Kaupþing, og bresk stjórnvöld frystu eignir Icesave, hefur mikil harka færst í samskipti íslenskra og breskra stjórnvalda.

Undirrót deilunnar snýr að því hver á að ábyrgjast innistæður Icesave.

Geir H. Haarde sagði í viðtali við 24 stundir í gær að eðlilegt væri að bresk stjórnvöld vildu verja sína borgara. „Ef eignir Landsbankans duga ekki fyrir því sem ábyrgðirnar ná til þá þurfa bresk og íslensk stjórnvöld að ræða saman um hvernig staðið verður að málum. Tryggingarsjóðurinn gæti þurft að hafa aðkomu að málinu en það er óljóst um hversu háar upphæðir er að ræða þar sem verðmæti eigna Landsbankans liggur ekki fyrir.“

Sveitarfélög í vanda

Ekki er undarlegt þótt bresk stjórnvöld taki harða afstöðu gegn íslenskum stjórnvöldum í málinu. Yfir 60 sveitarfélög og 300 þúsund einstaklingar geta tapað miklum upphæðum á viðskiptum sínum við Landsbankann og Kaupþing í London fari allt á versta veg. Sveitarfélögin er sögð í breskum fjölmiðlum, meðal annars breska ríkisútvarpinu BBC, hafa geymt um einn milljarð punda, um 200 milljarða króna, í sjóðum bankanna. Óttast er að þær upphæðir séu glataðar. Samband sveitarfélaga í Bretlandi kom þeim skilaboðum til Darlings fjármálaráðherra að innistæðutryggingar væru nauðsynlegar.

Breska dagblaðið The Guardian greindi frá því í gær að fjárhagstjón margra sveitarfélaganna væri svo mikið að nauðsynlegt væri að hækka útsvar töluvert innan tíðar. Töluverðrar ólgu gætir meðal forsvarsmanna sveitarfélaga og einstaklinga sem höfðu innistæður á Icesave-reikningum að því er segir í Guardian.

Upplýst hefur verið að Landsbankinn byrjaði að vinna að því í mars að stofna dótturfélag í Bretlandi utan um starfsemi Icesave, sem gæti tryggt stöðu innistæðueigenda í Bretlandi eingöngu. Sigurjón Árnason, annar tveggja forstjóra bankans, sagði í viðtali við Kastljós síðastliðið miðvikudagskvöld að breska fjármálaeftirlitið hefði ekki náð að vinna málið nægilega hratt. Því sitja íslensk stjórnvöld uppi með hundraða milljarða ábyrgðir, ef allt fer á versta veg.

Í hnotskurn
Lágmarks innistæðuvernd á innlánsreikningum hér á landi er tæplega 21 þúsund evrur eða um þrjár milljónir króna. Í Bretlandi nemur innistæðutryggingin 50 þúsund pundum, um 10 milljónum króna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert