Ástandið verra en þjóðargjaldþrot

Frá mótmælum við Austurvöll í gær
Frá mótmælum við Austurvöll í gær mbl.is/Kristinn

Þjóðargjaldþrot er ekki til sem efnahagslegt hugtak og þess vegna er ekki hægt að nota slík orð um yfirvofandi ástand hérlendis – hvað þá núverandi. Að sögn Þórólfs Matthíassonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, geta ríkissjóðir ekki hlaupið frá skuldbindingum sínum af þeirri ástæðu að þeir hafa skattlagningarvald og geta ekki lýst sig gjaldþrota.

„Í efnahagslegum skilningi er „þjóðargjaldþrot“ því ekki til. Gjaldþrot er úrræði til að setja strik undir rekstur sem er kominn í þrot,“ segir hann. „En þjóðin er ekki komin í þrot því hún heldur áfram að lifa og getur ekki hlaupið frá skuldum sem ríkissjóður hefur stofnað til. Í Hollandi eru komnar fram kröfur á við þriðjung þjóðarframleiðslu Íslendinga og í Bretlandi slagar krafan hátt í alla þjóðarframleiðsluna. Allar tekjur Íslendingar á heilu ári myndu sennilega ekki duga til að greiða þessar kröfur. Sem þjóð geta Íslendingar ekki lýst sig gjaldþrota og leyst sig undan þessu. Og að því leytinu er ástandið verra en „þjóðargjaldþrot“. Skuldin lifir og það sem er alvarlegt við það er að hækka þarf skatta eða draga saman opinbera þjónustu til að mæta þessum kröfum – því það er ekki hægt öðruvísi. Slíkar skattahækkanir yrðu ennfremur af allt öðrum toga en við eigum að venjast. Oftast er með skattahækkunum verið að færa skattpeninga úr einum vasa í annan og þeir lenda ýmist hjá eldri eða yngri kynslóðum skattgreiðenda innan sama ríkis. En það blasir við að skattahækkanir vegna kreppunnar færu í að greiða skuldir hjá óskyldum aðilum erlendis vegna þess að íslenskir bankar fengu lán hjá þessum aðilum á sínum tíma með ríkisábyrgð. Því er ástandið verra en gjaldþrot. Með gjaldþroti byrjar einstaklingur með hreint borð eftir tæpan áratug en það er ekki svo einfalt nú.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »