Leita leiða til yfirtöku Tonlistarhúss

mbl.is/Kristinn

Verið er að athuga hvernig ríki og Reykjavíkurborg geti tekið við framkvæmdum við tónlistarhúsið við Reykjavíkurhöfn. Markmiðið er að bjarga verðmætum með því að koma í veg fyrir að framkvæmdir stöðvist. Taki opinberir aðilar við húsinu er líklegt að þeir tæpu tíu milljarðar kr. sem þegar hafa verið lagðir í bygginguna fylgi.

Eignarhaldsfélagið Portus hf. samdi við ríkið og Reykjavíkurborg um að byggja tónlistar- og ráðstefnuhús við Austurhöfnina í einkaframkvæmd. Þrátt fyrir fjárhagserfiðleika eigendanna, Landsbankans og Nýsis, hefur Portus getað staðið í skilum við verktaka, eftir því sem næst verður komist. Félagið hafði fjármögnun til ákveðins tíma, áður en bankarnir fóru í þrot, en fresturinn sem menn hafa til að ganga frá framhaldinu er að styttast.

Íslenskir aðalverktakar hafa hægt á framkvæmdum í samráði við þá sem standa fyrir verkefninu. Ekki er lengur unnið á nóttunni.

Félag í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar, Austurhöfn-TR ehf., hefur það hlutverk að sjá til þess að tónlistarhúsið rísi og komist í rekstur. Stefán Hermannsson framkvæmdastjóri segir að verið sé að fara yfir alla valkosti í stöðunni núna en að lokum verði eigendur félagsins að koma að ákvörðunum.

Málið er flókið úrlausnar, meðal annars vegna annarra verkefna sem eru á lóðinni við Austurhöfn og Portus á aðild að. Samningar Austurhafnar við Portus kveða á um að Austurhöfn geti gengið inn í samninga Portusar við verktakann og tekið framkvæmdina yfir. Helgi S. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Portusar, segir að Austurhöfn geti vissulega gert það en þurfi þá að greiða inn í þrotabú félagsins þá fjármuni sem lagðir hafa verið í húsið. Þar er um að ræða hátt í tíu milljarða króna, þar af um tveir milljarðar í eigin fé sem Landsbankinn og Nýsir hafa lagt fram. Áætlað er að húsið kosti alls um 15 milljarða.

Stjórnendur Portusar leggja til að Austurhöfn fari frekar þá leið að kaupa eða taka yfir Eignarhaldsfélagið Portus og tengd félög. Telur Helgi að auðveldara verði að halda framkvæmdinni áfram með þeim hætti. Þá sé minni hætta á að samningssamband við verktaka rakni upp og framkvæmdin stöðvist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert