Segja Ísland hafi orðið fyrir auðmýkingu

Öryggisráð SÞ á fundi.
Öryggisráð SÞ á fundi. Reuters

Breska blaðið The Times segir, að Ísland hafi orðið fyrir enn einni auðmýkingunni á alþjóðavettvangi í dag, þegar „hið nærri gjaldþrota land," eins og blaðið segir, tapaði fyrir Tyrklandi og Austurríki í atkvæðagreiðslu um tvö sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Blaðið segir, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hafi að hluta kennt aðgerðum Breta gegn íslenskum bönkum um niðurstöðuna. „Aðgerðir Breta hjálpuðu ekki til... þegar þeir beittu einskonar hryðjuverkalögum gegn smáþjóð," hefur blaðið eftir henni.

The Times segir, að Bretar hafi látið sér fátt um aðfinnslur Íslendinga finnast. „Þetta mál er í vinnslu milli höfuðborga landanna. Við teljum að það ríki nú fullur skilningur á nauðsyn þess, að vernda alla sparifjáreigendur sem eiga innistæður í íslenskum bönkum," segir Sir John Sawers, sendiherra Bretlands hjá Sameinuðu þjóðunum, við blaðið.

„Þótt Ísland horfist í augu við fjármálalegt hrun hélt það fast við framboð sitt til öryggisráðs SÞ. Atkvæðagreiðslan fór fram á sama tíma og landið átti í viðræðum við Rússa um margra milljóna dala hugsanlegt lán sem myndi setja landið undir hæl öflugs ríkis sem á fastafulltrúa í öryggisráðinu," segir The Times.

Fimm lönd eiga fastafulltrúa í öryggisráðinu: Rússland, Bandaríkin, Frakkland, Kína og Bretland.  

Frétt The Times

mbl.is

Bloggað um fréttina