Ákvörðun á allra næstu dögum

Björgvin G. Sigurðsson segir ríkisstjórnina fylgjast grannt með hverju skrefi …
Björgvin G. Sigurðsson segir ríkisstjórnina fylgjast grannt með hverju skrefi í efnahagsmálunum. Brynjar Gauti

Ákvörðun um hvort íslensk stjórnvöld fái aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður tekin á allra næstu dögum, samkvæmt heimildum mbl.is. Ríkisstjórnin á eftir að taka formlega afstöðu til þess hvort aðstoðar verði leitað, með ósk um lán eða aðra aðstoð.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir ríkisstjórnina eiga eftir að taka formlega afstöðu til þess hvort aðstoðar verði leitað. „Á þessum fundi í dag ræddum við um stöðu efnahagsmála heildrænt. Varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá liggur fyrir að ríkisstjórnin á eftir að taka afstöðu til þess hvort aðstoðar hjá honum verði leitað,“ segir Björgvin. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um hvað var rætt á fundi hans, Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra, Árna M. Mathiessen fjármálaráðherra og Geirs H. Haarde forsætisráðherra. Fundurinn fór fram fyrr í dag.

Vaxandi þrýstingur er nú á íslensk stjórnvöld erlendis frá, samkvæmt heimildum mbl.is, að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna vandamála í efnahagsmálum hér á landi. Einkum eru það viðskipti við útlönd sem ganga treglega, meðal annars vegna vantrausts sem ríkir milli fjármálastofnanna erlendis og hér á landi. Íslensk fyrirtæki hafa átt í vandræðum með að stunda viðskipti við útlönd að undanförnu og hefur erfiðlega gengið að koma stöðugleika á þau mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert