Jólabækur í hættu vegna hnökra í greiðslumiðlun

Björn Eiríksson, bókaútgefandi í Skjaldborg
Björn Eiríksson, bókaútgefandi í Skjaldborg Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hætta er á að bækur sem prentaðar eru úti og koma átti á markað hér fyrir jólin, berist ekki í tæka tíð vegna hnökra í greiðslumiðlun. Þá eru dæmi um að fyrirhuguðum útgáfum hafi verið slegið á frest til jólanna 2009.

„Ég opnaði bankaábyrgð hjá mínum viðskiptabanka fyrir nokkru og þaðan fóru pappírar upp í Seðlabanka. Síðan hefur ekkert gerst. Ég óttast mest að bókin berist ekki fyrr en milli jóla og nýárs og nái því ekki í tæka tíð fyrir jólavertíðina. Þá hef ég ekkert með bókina að gera," segir Björn Eiríksson, bókaútgefandi hjá Skjaldborg.

Bókin sem Björn vísar til er sagan af Konna og Næturtreflinum, myndskreytt barnabók sem hagstæðara þótti að prenta úti.

„Ég hef sent þeim tölvupóst og beðið um að bókin verði send af stað, svo hún nái til landsins fyrir jól. Ábyrgðin er til staðar en föst í kerfinu. Ég hef engin svör fengið enn. Ef bókin berst ekki fyrir jólin hef ég ekkert með hana að gera," segir Björn Eiríksson.

Skjaldborg áformaði að gefa út 18 titla fyrir þessi jól og átti að prenta um helminginn úti. Björn Eiríksson segist nú þegar hafa sett þrjár bókanna á bið til jólanna 2009 vegna ástandsins. Ekki sé útilokað að fleiri útgáfum verði slegið á frest.

„Það er óvissa í þessari grein eins og nánast öllu öðru í dag. En það þýðir svo sem ekkert annað en vera bjartsýnn. En maður vonar að gamla kenningin um að bækur seljist aldrei betur en í kreppu sé sönn og rétt," segir Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert