Enn unnið að samkomulagi við IMF

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eftir ríkisstjórnarfund í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir eftir ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Golli

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði aðspurð eftir ríkisstjórnarfund í dag, að hún hefði ekki séð neina þá skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í viðræðum við Ísland, sem hún gæti ekki samþykkt. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að óvissa um þjóðhagsstærðir valdi töfum á samningum við sjóðinn.

„Auðvitað ræddum við mál málanna sem er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og samningur okkar við hann. Það er ekki komin endanleg niðurstaða í það mál, en vonandi skýrist það,“  segir Ingibjörg við fjölmiðla að loknum ríkisstjórnarfundi. 

Aðspurð á hverju stæði sagði Ingibjörg verið að ganga frá ýmsum lausum endum. „Auðvitað er þetta alltaf spurning um það hvort skilmálarnir séu þannig að við teljum að þeir séu aðgengilegir og það er engin ástæða til að ætla annað. En þetta er bara handavinna.“

Spurð hvort sér fyndist málinu þoka of hægt fram sagði Ingibjörg því eki að leyna að hún hefði viljað sá hlutina gerast hraðar. „En þetta virðist bara taka svona langan tíma,“ sagði Ingibjörg og tók fram að hafa yrði í huga að þó íslenskir ráðamenn kæmust að niðurstöðu þá ætti samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eftir að fara fyrir stjórn sjóðsins til samþykktar. 

Spurð hvort samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé forsenda fyrir því að önnur lönd aðstoði Íslendinga svaraði Ingibjörg því játandi. „Það eru þau skilaboð sem við höfum fengið mjög víða að, að þetta sé aðgöngumiðinn. Því þjóðirnar sem kannski vilja koma að borðinu geta ekki hver og ein sest yfir verkefnið og reynt að greina það og taka afstöðu til einstakra atriða. Það er því mikilvægt að það sé einhver einn aðili, sem þessar þjóðir treysta, sem fari yfir málið og það sé hægt að byggja á þeim forsendum sem sá aðili leggi upp með.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert