Líkir Bretaláni við fjárkúgun

Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna segist hafa heyrt þann orðróm að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi sett sem skilyrði að mál vegna Icesave reikninga Landsbankans yrðu gerð upp að fullu við Breta og Hollendinga.

Financial Times greindi frá því í gærkvöldi  að í farvatninu sé að Bretar láni íslenskum stjórnvalda 580 milljarða til að greiða innistæðueigendum Icesave reikninganna.  Steingrímur segir að ef það sé rétt að þetta tvennt hangi saman sé það hrein fjárkúgun. Ekki liggi fyrir að okkur sé lagalega skylt að gera það og þetta bendi til þess að verstu martraðir séu að rætast varðandi aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var spurður um þetta eftir ríkisstjórnarfund í gær og neitaði því hvorki né játaði að þetta væru skilyrði að hálfu sjóðsins en fullyrti að verið væri að skoða þjóðréttarlegar skuldbindingar vegna lánanna í fjármálaráðuneytinu.

Steingrímur J.  gagnrýnir upplýsingagjöf stjórnvalda til Alþingis og almennings í landinu sem eigi að borga brúsann. Slíkar skuldbindingar upp á hundruð milljarða geti ekki verið einkamál einnar ríkisstjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert