RÚV sagt kynda undir sleggjudómum og ofstæki

„Í Kastljósi í gær og Silfri Egils þarsíðasta sunnudag var spurt þeirra spurninga sem brenna á vörum almennings, - sama almennings og nú er um það bil bil að axla reikning upp á nokkur hundruð milljarða króna fyrir það hvernig íslenskir auðmenn og íslensk stjórnsýsla hafa haldið á málum,“ segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins ohf. í svarbréfi til Tryggva Gíslasonar, fyrrum skólameistara MA.

Tryggvi sendi Páli harðort bréf vegna framgöngu Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi í gærkvöld og Egils Helgasonar í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag. Tryggvi sakaði starfsmenn RÚV um hafa gengið í lið með dómstóli götunnar, skrílmenningu og að hafa kynnt undir sleggjudóma og ofstæki. Í Kastljósinu sat Geir H. Haarde fyrir svörum Sigmars Guðmundssonar en Egill Helgason gekk hart fram í samtali sínu við Jón Ásgeir Jóhannesson.

Páll Magnússon segist í svarbréfi sínu til Tryggva hjartanlega ósammála sjónarmiðum hans. „Almennt tel ég að fremur megi gagnrýna íslenska fjölmiðla fyrir linkulega framgöngu við valdamenn – kjörna, skipaða og sjálfskipaða – en hið gagnstæða. Kannski mætti segja að hlutur fjölmiðla í hinni margumtöluðu og margþættu ábyrgð á núverandi ástandi felist einmitt í því, - skorti á aðgangshörku,“ segir Páll í bréfinu.

Þá segir Páll að á stundum kunni að vera nokkuð fíngerð lína á milli þess að stjórnandi sýni eðlilega aðgangshörku eða óþarfa dónaskap. Það geti ráðist af smekk áhorfandans, samúð hans með viðkomandi einstaklingi eða málstað eða jafnvel uppeldi, hvor hliðin á þessum peningi honum finnst vera uppi hverju sinni. Páll tekur fram að talsverður munur sé á þeim þáttum sem kvartað er undan. Egill hafi heldur lengri taum í Silfrinu en Sigmar í Kastljósi.

Páll segist telja að Ríkisútvarpið hafi staðið fyrir áreiðanlegum, hlutlægum, hófstilltum, sjálfstæðum og traustum  fréttaflutningi af þeim þrengingum sem nú steðja að þjóðinni. Fullyrðingar um annað séu ósanngjarnar.

mbl.is