Ingibjörg áfram varaforseti

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, ætlar að halda áfram að gegna þeirri stöðu út kjörtíma sinn, sem er fram á haustið 2009. Varaforseti er kjörinn til tveggja ára rétt eins og forseti, en kjörtímabilin skarast.

Ingibjörg segir í samtali við blaðamann mbl.is að í þeim erfiðu aðstæðum sem framundan eru í þjóðfélaginu skipti miklu að forysta Alþýðusambandsins sé vel í stakk búin til að takast á við þær. Reynsla hennar nýtist vel í því sambandi.

Ingibjörg hvatti Gylfa Arnbjörnsson, nýkjörinn forseta ASÍ, til þess að standa sig í stykkinu í nýja embættinu. Hún sló á létta strengi og minnti hann á að það væri stundum mikilvægara að hlusta en að tala.

Gylfi segir að þessari mannabreytingu í forsetastólnum muni ekki fylgja sérstök stefnubreyting. Mikil eindrægni sé í forystunni hjá ASÍ. Brýnasta verkefni forseta í framhaldi af fundinum sé að koma stefnumótun sambandsins á framfæri, og vinna að því að koma á fjármálastöðugleika og auka trúverðugleika íslensku krónunnar. Skoðun Gylfa, eins og fram hefur komið, er sú að Íslendingar eigi ekki annan kost en að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið og sækja um aðild að evrópska myntsamstarfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert