Mjög erfiðir tímar framundan

Fulltrúar IMF á blaðamannafundi í húsnæði ríkissáttasemjara í dag.
Fulltrúar IMF á blaðamannafundi í húsnæði ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Kristinn

Paul Thomsen, formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði á blaðamannafundi í dag, að ljóst væri að mjög erfiðir tímar væru framundan á Íslandi. Spár gerðu ráð fyrir að verg landsframleiðsla kunni að dragast saman um allt að 10% en sú spá væri háð mikilli óvissu.

Thomsen sagði, að hættan væri sú, að þegar gjaldeyrismarkaðir verða opnaðir á ný verði gjaldeyrisflótti og það muni leiða til enn frekari lækkunar krónunnar. Slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir skuldsett heimili og fyrirtæki. Því væri meginverkefnið nú er að koma á stöðugleika í gjaldeyrismálum.

Til lengri tíma væri verkefnið, að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum. Mikil umskipti yrðu nú á stöðu íslenska ríkisins, sem hefði verið lítið skuldsett en yrði nú mjög skuldugt. Ekki lægi fyrir hverjar skuldirnar yrðu í raun fyrr en eftir nokkur ár þegar ljóst yrði hver verðmæti íslensku bankanna í útlöndum væri. 

Thomsen sagði að gert væri ráð fyrir, að draga muni úr verðbólgu á næsta ári og hún verði orðin um 4,5% í lok næsta árs.

Hann sagði að áætlað væri að Ísland þyrfti á 6 milljarða dala fjármögnun að halda á næstu tveimur árum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni leggja fram 2 milljarða dala en líklegt væri að Norðurlandaþjóðirnar myndu taka með jákvæðum hætti þátt í því verkefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina