Háskólinn mun svara kalli samtímans

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Eitt besta framlag Háskóla Íslands á erfiðum tímum í efnahag landsins er að leggja enn aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á öllum sviðum vísinda og fræða innan skólans. Þetta var meðal þess sem fram kom í brautskráningarræðu Kristínar Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, fyrr í dag.

„Markmiðið er að skólinn geti ungað út hugmyndum, verkefnum og sprotafyrirtækjum sem verði nýr þáttur í atvinnulífinu. Til að þetta gerist munum við styrkja enn umgjörð nýsköpunarverkefna til að hraða þróun þeirra og auka líkur á að þau verði að fullburða fyrirtækjum sem láti að sér kveða í atvinnu- og verðmætaskapandi starfsemi.“

Í ræðu sinni minnti Kristín á að Háskóli Íslands hefði verið ein af grunnstoðum samfélagsins, fyrst í sjálfstæðisbaráttu og svo allan lýðveldistímann.  „Nú á erfiðleikatímum spyrjum við hvernig  Háskólinn geti orðið aflstöð sem knúið getur samfélagið upp úr öldudal og til nýrrar framfarasóknar.“

Kristín lagði áherslu á að Háskólinn þjónaði í starfi sínu jafnt efninu sem andanum. Hann sinni verkefnum sem leggi grunn að  efnahagslegri velferð, og verkefnum sem miði að því að gera samfélagsgerðina og mannlífið betra.

„Nú þegar við þurfum að bregðast við breyttum kringumstæðum og mótlæti þjónar Háskólinn okkur best ef við eflum jafnt báða þessa þætti í starfi hans. Háskólinn er vel í stakk búinn að sinna þessu starfi.  Hann vinnur í samræmi við skýr stefnumarkmið og við höfum breytt öllu innra skipulagi skólans og stjórnkerfi til þess að geta beitt honum af meiri krafti til að ná þessum markmiðum.“

Í ræðu sinni lagði Kristín áherslu á að efnahagsleg velferð á Íslandi, lífskjörin,  muni batna í hlutfalli við þau verðmæti sem sköpuð verða hérlendis á næstu árum.  Sagði hún að auka þyrfti framleiðni í þeim atvinnugreinum sem fyrir væru og að einnig yrði að skapa nýtt.


„Ég tel að Háskóli Íslands eigi að leggja enn aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á öllum sviðum vísinda og fræða innan skólans. Markmiðið er að skólinn geti ungað út hugmyndum, verkefnum og sprotafyrirtækjum sem verði nýr þáttur í atvinnulífinu. Til að þetta gerist munum við styrkja enn umgjörð nýsköpunarverkefna til að hraða þróun þeirra og auka líkur á að þau verði að fullburða fyrirtækjum sem láti að sér kveða í atvinnu- og verðmætaskapandi starfsemi.“


mbl.is

Bloggað um fréttina