Áhersla á rannsóknir og nýsköpun

Merki íslensku áætlunarinnar.
Merki íslensku áætlunarinnar.

Íslendingar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2009. Áherslur íslenskra stjórnvalda voru kynntar á Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki í dag og þar kemur fram, að rauður þráður í áætluninni sé  að stórefla samstarf um rannsóknir og nýsköpun, ekki síst á sviði loftslags, orku og umhverfismála.

Íslendingar hafa frumkvæði að fjölmörgum samstarfsverkefnum á formennskutímanum. Þeirra á meðal eru:

  • Gerð vákorts fyrir Norður-Atlantshafið sem verður grundvöllur fyrir samræmdar aðgerðir komi til umhverfisslyss.
  • Þverfaglegt samstarf sem miðar að því að efla frumkvöðlamenningu á öllum stigum skólakerfisins.
  • Átak til að auka áhuga á norrænum menningar- og málskilningi.

Björgvin G. Sigurðsson, samstarfsráðherra, segir í tilkynningu, að áherslumál Íslendinga endurspegli mikinn metnað í norrænu samstarfi, en forsætisráðherrar Norðurlanda mörkuðu fyrir rúmu ári stefnu í fjórtán liðum til að mæta áskorunum hnattvæðingarinnar.

Efnt verður til fjölmargra ráðstefna og málþinga á Íslandi á formennskuárinu 2009, m.a. um nýsköpunarmennt, gæði í norrænu háskólastarfi og nýsköpun í sjávarútvegi. Stærsti viðburðurinn verður hnattvæðingarþing í lok febrúar, þar sem orku- og umhverfismál verða til umræðu. Sérþekking og nýsköpun norrænna þjóða í umhverfistækni og endnýjanlegum orkugjöfum verður þar í forgrunni.

Á þinginu verða saman komnir forsætisráðherrar Norðurlanda, samstarfsráðherrar, forystumenn í norrænu atvinnulífi og fremstu sérfræðingar um hnattvæðingu og nýsköpun.

mbl.is

Bloggað um fréttina