Frostkaldur andardráttur IMF

Stýrivaxtahækkun Seðlabankans, að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er glæpsamleg gagnvart heimilum og litlum fyrirtækjum, segir formaður BSRB. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir vaxtahækkunina  koma afar illa við atvinnulífið en hann vonast til að hávaxtatímabilið verði stutt.

Ögmundur Jónasson þingmaður og formaður BSRB segir stýrivaxtahækkunina glapræði og nánast glæpsamlega gagnvart litlum fyrirtækjum og heimilum í landinu. Íslendingar séu að kynnast frostköldum andardrætti Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins.

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir vaxtahækkunina koma afar illa við atvinnulífið en aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sé eina leiðin til að nálgast erlendan gjaldeyri. Í önnur hús sé ekki að venda. Sjóðnum gangi ekkert illt til. Hann vilji ekki að það verði flótti fjármagns frá landinu og vilji því halda vöxtunum háum. Það standi vonir til þess að hægt verði að ná upp gengi krónunnar fljótt og þetta hávaxtatímabil verði stutt. Hver vika sé dýrmæt fyrir atvinnulífið.  
mbl.is