Vilhjálmur: Vaxtahækkunin áfall

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins, segir þá ákvörðun Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um 6% vera mikið áfall. „Ég er mjög óhress með þetta. Við áttum von á einhverri hækkun í kjölfar þess sem fram kom varðandi aðkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en þetta er mun meiri hækkun en við höfðum reiknað með,” segir hann. 

„Ég tel að þetta verði mjög skaðlegt fyrir íslenskt atvinnulíf. Þar sem aðgangur að erlendu fjármagni er takmarkaður hafa atvinnurekendur hér þurft að treysta á innlenda fjármögnun í auknu mæli að undanförnu. Þetta gerir því allt mun erfiðara,” sagði Vilhjálmur er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag. 

„Það sem skiptir mestu máli núna er að fá í gegn þær erlendu lánveitingar, sem unnið er að, þannig að hægt verði að koma með þá peninga inn í landið. Það er forsenda þess að gengið geti farið að hækka. Það sem okkur vantar núna er trú á að krónan geti hækkað. Það er það sem okkur vantar en ekki vaxtahækkun.”  

mbl.is

Bloggað um fréttina