Bjóða lægra starfshlutfall eða launalækkun

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR
Gunnar Páll Pálsson, formaður VR mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er þó nokkuð um það að fyrirtæki óski eftir að launafólk lækki starfshlutfall sitt eða taki á sig launalækkun. Hvort heldur sem er þá er um 10% niðurskurð að ræða. Á móti fær launafólk 2 aukafrídaga í mánuði sem vinnuveitandi ræður hvenær eru teknir,“ segir Gunnar Páll Pálsson, formaður VR.

Hann segir mörg stærri fyrirtæki hafa farið þessa leið til að komast hjá uppsögnum eða draga verulega úr þeim. „Við erum að heyra af mjög stórum fyrirtækjum sem fara þessa leið og nærri lætur að starfsmannafjöldi þeirra sé um 2.000. Þetta eru bílaumboð, byggingavöruverslanir og skipafélög, svo dæmi séu tekin. Við höllumst að því að þetta geti verið góð leið í stöðunni,“ segir Gunnar Páll Pálsson.

Hann segir erfitt að henda reiður á hver fjöldinn er sem fær uppsagnarbréf um mánaðamót. Mikið hafi verið hringt á skrifstofuna undanfarna daga. Fyrst og fremst séu atvinnurekendur í leit að upplýsingum um hvernig standa skuli að uppsögnum eða breytingum á starfskjörum.

mbl.is