Ekki benda á mig, segir Samfylkingin

Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Lúðvík Bergvinsson þingmenn Samfylkingarinnar segja Seðlabankann hafa tekið ákvörðun um að hækka stýrivexti um helming í gær. Bæði Seðlabankinn og forsætisráðherra hafa sagt að vaxtahækkunin væri liður í samkomulagi IMF og stjórnvalda. Þingmennirnir segja hinsvegar ljóst að með því að halda öðru fram sé vegið að sjálfstæði bankans.

Á hinn bóginn fullyrti Steinunn Valdís að Framsóknarflokkurinn hefði borið ábyrgð á stýrivaxtahækkunum á síðasta kjörtímabili með vondum afleiðingum fyrir efnahagslífið.

Bjarni Harðarson þingmaður Framsóknarflokks taldi þetta ekki stórmannlegt af þingmönnum Samfylkingarinnar og sagði að stjórnarfar landsins væri komið að mörkum fáránleikans. Það væri kominn tími til að Samfylkingin áttaði sig á því að hún væri í ríkisstjórn við erfiðar aðstæður. Það væri mikilvægt á slíkum tímum að annar helmingur ríkisstjórnarinnar væri ekki að mótmæla ákvörðunum stjórnarinnar á Alþingi og standa fyrir mótmælaaðgerðum á tröppum ráðherrabústaðarins um helgar gegn þeirri ríkisstjórn sem þeir sjálfir sitja í.

mbl.is