Gamli Herjólfur notaður til bráðabirgða

mbl.is/Brynjar Gauti

Útlit er fyrir að nota verði núverandi Herjólf til bráðabirgða, þegar siglingar hefjast milli nýrrar Landeyjahafnar og Vestmannaeyja eftir tæp tvö ár. Búast má við að frátafir verði tvöfalt meiri en þegar nýja ferjan kemur.

Óvissa er með smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju vegna efnahagsástandsins. Þýska skipasmíðastöðin Fassmer sem ákveðið var að semja við eftir útboð treystir sér ekki til að hefja smíði svo sérhæfðs skips nema greiðslur frá Íslandi séu tryggar.

Undirbúningsframkvæmdir við Landeyjahöfn eru hafnar og á höfnin að vera tilbúin í ágúst 2010. Vegna dráttar sem orðið hefur á útboði á nýrri ferju og samningum er þegar ljóst að sérsmíðuð Vestmannaeyjaferja mun ekki hefja siglingar á því ári.

Fulltrúar Ríkiskaupa og Siglingastofnunar eru í sambandi við þýsku skipasmíðastöðina. Framlengdur frestur til að taka tilboðinu rennur út um miðja næstu viku. Beðið er ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um hvað hægt sé að gera.

Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hafnasviðs Siglingastofnunar, segir að frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir því að nota gamla Herjólf áfram, ef ný ferja yrði ekki tilbúin í tæka tíð. Eldra skipið er nærri því 90 sentimetrum djúpristara en það nýja og á þess vegna erfiðara með að sigla inn í nýju höfnina í öldugangi en það nýja. Gert er ráð fyrir því að helmingi fleiri ferðir falli úr hjá gamla Herjólfi en ferjunni sem fyrirhugað er að smíða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert