Adolf formaður LÍÚ

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ mbl.is

Adolf Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gullbergs ehf. á Seyðisfirði, var kjörinn formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna á 69. aðalfundi samtakanna sem lauk í dag. Adolf tekur við formennsku af Björgólfi Jóhannssyni sem verið hefur formaður LÍÚ síðastliðin fimm ár.


Adolf Guðmundsson er fæddur í Reykjavík 1954. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1974 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1982. Um tíma var hann fulltrúi sýslumannsins á Seyðisfirði en lengst af að námi loknu hefur hann unnið hjá Gullbergi ehf. á Seyðisfirði eða frá 1. október 1982. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar hf. á Seyðisfirði frá 1985 til 1989. Stjórnarformaður frystihússins Brimbergs ehf. hefur hann verið frá 2003. Adolf öðlaðist réttindi til málflutnings árið 1999.

Adolf hefur gegnt ýmsum félags- og trúnaðarstörfum. Hann var formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands 1983 til 1987. Í stjórn Atvinnuþróunarfélags Austurlands og formaður þess árið 1990. Í stjórn vaxtarsamnings Austurlands og kjörræðismaður Þýskalands hefur hann verið frá 1995. Hann er formaður Útvegsmannafélags Austurlands og hefur átt sæti í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 2005. 
Sambýliskona Adolfs er Theodóra Ólafsdóttir. Þau eiga tvö börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina