Seðlabankinn í mínus

Seðlabankinn hefur tapað allt að 150 milljörðum á veðlánaþjónustu Seðlabankans það sem af er árinu.

Forsætisráðherra segir endanlega tölu ekki liggja fyrir en þetta sé meðal annars vegna þess að fyrr á þessu ári hafi verið gerðar þær kröfur til bankans að hann veitti viðskiptabönkunum aukna fyrirgreiðslu um lausafé. Nú sé komið á daginn að þau veð sem lágu til grundvallar þessum lánum eru verðminni en áður var talið. Eigið fé bankans er um níutíu milljarðar. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingarinnar sagðist ekki ætla að gagnrýna þá trúmennsku sem ráðherrann sýndi seðlabankastjóranum en það væri óhjákvæmilegt að stjórn bankans axlaði ábyrgð við aðstæður sem þessar, ekki vegna  þess að þar væru vondir menn, heldur vegna þess að mistök hefðu verið gerð.  Nánar um umræðuna í MBL Sjónvarpi eftir stutta stund.

mbl.is