Árás á fullveldi þjóðarinnar

Pétur Blöndal  formaður viðskiptanefndar Alþingis líkir því við árás á fullveldi þjóðarinnar ef bankar og fjármálafyrirtæki hafi haft samantekin ráð um að taka stöðu gegn íslensku krónunni. Samningar um stöðutöku gegn íslensku krónunni nema allt að 720 milljörðum  króna en Morgunblaðið greinir frá því í dag að þetta hafi komið í ljós við skoðun á efnahagsreikningum bankanna. Pétur segir öllu máli skipta hvort þetta hafi verið samantekin ráð.  Auðvitað geti verið um eðlileg viðskipti að ræða eða framvirka gjaldeyrisamninga en þetta þurfi að skoða gaumgæfilega sem og allan grun um sviksamlegt athæfi.

Pétur segist telja ýmislegt bogið við regluverk Evrópusambandsins og eins reglur í alþjóðlegum viðskiptum með framvirka samninga. Það sýni sig í viðskiptum með olíu núna að það sé eitthvað mikið að þessu samningakerfi .  Hann segist enn telja að við getum notast við krónu. Þá sé ljóst að það þurfi að koma hlutunum í lag áður en hægt sé að skoða hvort það eigi að breyta um gjaldmiðil.  Hægt sé að spyrja sig á hvaða gengi eigi að taka upp evru eða að norska krónu?  Svörin við þessu hafi gríðarlega áhrif á skuldir og eignir einstaklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert