Samson synjað um frekari greiðslustöðvun

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun beiðni Samson, eignarhaldsfélags, sem er í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, um framlengingu greiðslustöðvunar. Samson fékk greiðslustöðvun 7. október og rann hún út 28. október. Þegar óskað var eftir framlengingu gerði lögmaður Commerzbank International S.A. athugasemdir og krafðist þess að beiðninni yrði hafnað.

Lögmaður Samson taldi nauðsynlegt að fá framlengingu á greiðslustöðvun félagsins vegna þess að mikil óvissa ríki um raunverulega stöðu Samson og að máli skipti að niðurstaða fáist um hvort verðmæti felist í bréfum Samson í Landsbanka Íslands hf.

Lögmaður Commerzbank vísaði m.a. til viðtals við Björgólf Guðmundsson, aðaleiganda Samson í Morgun­blaðinu þann 26. október 2008, þar sem fram komi það mat Björgólfs að bréf Samson í Landsbanka Íslands hf., sem áður voru 130-140 milljarða virði, séu nú einskis virði. Jafnvel þó að litið verði svo á að virði bréfa Samson í Landsbanka Íslands hf. hafi ekki minnkað um nema 70-80% frá því verði sem notað sé til við­miðunar, sé Samson engu að síður ómögu­legt að standa í skilum við lánadrottna sína. Samson sé því sýnilega orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur segir m.a að ekki þyki sýnt að ráðagerðir Samson séu til þess fallnar að ráða bót á færni hans til greiðslu. Fram hafi komið að undirbúningur standi yfir til þess að innheimta kröfur og selja óveð­settar eignir. Upplýsingar um þessar ráðagerðir séu hins vegar svo óljósar, að mati dómsins, að ekki þykir unnt að leggja mat á það hvort þær séu raunhæfar eða líklegar til að koma nýrri skipan á fjár­mál Samson. Því séu ekki skilyrði fyrir veitingu greiðslustöðvunar fyrir hendi.

Loks segir að þegar fyrirliggjandi upplýsingar um efnahag Samson eru virtar, en stærsta eign félagsins er 41,85% hlutur í Landsbanka Íslands hf., þyki ekkert tilefni vera til að telja greiðsluörðugleika Samson aðeins tímabundna. Verði því að fallast á það með Commerzbank að Samson sé skylt að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is

Bloggað um fréttina