Skoðað hvort leyft verður að selja hluta húsa

mbl.is/Frikki

Félagsmálaráðuneytið skoðar hvort veita eigi Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum leyfi til að eignast hlut í fasteignum landsmanna í stað þess að eigendur þeirra verði teknir til gjaldþrotaskipta. Hagfræðingarnir Gylfi Zoëga og Jón Daníelsson hafa bent á þá leið til að bjarga fjárhag fölskyldna. Hugmyndin er nú meðal annarra sem ráðuneytið skoðar.

„Einnig er í skoðun að veita Íbúðalánasjóði leyfi til að leigja þeim sem missa íbúðir sínar þær aftur,“ segir Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra. Enn sé þó óljóst hvert leiguverðið yrði. Það myndi líklegast miðast við verð á leigumarkaði.

Hrannar segir enn óljóst hvaða leiðir verði farnar. „Við vinnum eins hratt að lausn og við mögulega getum.“

Jón og Gylfi settu hugmyndina um að selja lánveitendum hluta heimila og lækka þannig afborgunina fyrst fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu og fullyrtu í Silfri Egils á sunnudag að þeir hefðu fengið álit lögfræðinga á því að þessi leið væri fær með einu pennastriki, það er lagabreytingu. Hrannar segir ráðuneytið skoða hvaða lögum þyrfti að breyta og bendir á að meðal annars þyrftu lífeyrissjóðirnir leyfi til að eiga íbúðir.

Hrafni Magnússyni, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðanna, hugnast betur að Íbúðalánasjóði væri einum leyfilegt að eignast hlut í húsum landsmanna. „Lífeyrissjóðirnir eru margir og mega ekkert gera nema taka við iðgjöldum, ávaxta fjármunina og greiða út lífeyri. Það er þeirra hlutverk.“

Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir vissulega góðra gjalda vert að reyna að hjálpa sem flestum og nýjum úrræðum sjóðsins sé nú beitt til þess. „En ef fleiri og kostnaðarsamari úrræði eru í farvatninu verður einnig að gæta að því að sjóðurinn, og bankastofnanir, hafi bolmagn til að standa undir þeim. Vissulega er um ríkisstofnun að ræða og þar með ríkisábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Það er því ríkisvaldið, ríkisstjórn og Alþingi, sem mælir fyrir um hvert hlutverk sjóðsins skuli vera,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert