Árs fangelsi fyrir manndráp af gáleysi

Frá slysstað á Sandskeiði í desember 2006.
Frá slysstað á Sandskeiði í desember 2006. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness um að 24 ára gamall karlmaður sæti 12 mánaða fangelsi fyrir vítavert gáleysi við akstur. Maðurinn olli umferðarslysi á Suðurlandsvegi í desember árið 2006 þar sem þrítugur karlmaður og 5 ára gömul stúlka létu lífið og faðir stúlkunnar og átta ára gamall bróðir slösuðust alvarlega.

Maðurinn var einnig sviptur ökuréttindum í fjögur ár. Hæstiréttur var sammála héraðsdómi um að ekki væri hægt að skilorðsbinda dóminn en ungi maðurinn hefur í alls 9 skipti verið staðinn að hraðakstri eftir að hann olli slysinu.

Hæstiréttur vísaði til forsendna héraðsdóms sem taldi  sannað með vitnisburði tveggja vitna, að maðurinn hefði ætlað sér að aka fram úr vörubifreið og í því skyni ekið yfir á rangan vegarhelming. Var akstur mannsins talinn gáleysislegur og vítaverður miðað við þær aðstæður sem á vettvangi voru.

Maðurinn ætlaði sér að taka fram úr vörubíl í Draugahlíðarbrekkunni. Bílstjóri vörubifreiðarinnar lýsti atvikinu svo í dómi héraðsdóms: „Segir [bílstjórinn] að hann hefði séð strax að það væri ekki séns að mætast þarna. Þá hefði hann séð að ökumaður á [bíl ákærða] beygði ákveðið til vinstri og greinilega ætlað að stefna út af veginum, sennilega til að reyna að koma í veg fyrir árekstur. Hefði vinstra framhorn verið komið um meter út fyrir veginn er árekstur varð. Hefði hann séð hægra framhorn bílanna skella saman."

Í bílnum sem kom úr gangstæðri átt var faðir með tvö börn sín. Stúlka fædd árið 2001 lét lífið og drengur fæddur 1998 hlaut brot á lendhryggjarlið og lömun á fótum. Ökumaðurinn og faðir barnanna rifbrotnaði og marðist á brjóstkassa, kviðvegg og hné. Farþegi í bíl með unga manninum  lést einnig.

Sá bifreiðina koma á móti

Maðurinn skýrði svo frá fyrir dómi að hann ekið á eftir vörubifreið, slabb hafi verið á veginum og gusast frá vörubifreiðinni og upp á framrúðuna. Hann hafi lítið séð út. Vegna þessara aðstæðna hafi hafi það skyndilega gerst að bifreiðin hafi ekki látið að stjórn, hún hafi sveigst til vinstri og yfir á hina akreinina.

Maðurinn sagðist hafa séð bíl koma á móti en átt erfitt með að meta fjarlægðina þar sem aðeins eitt framhljós hennar logaði. Ekki hafi tekist að koma í veg fyrir árekstur. Í árekstrinum úlnliðsbrotnaði hann og skrámaðist í andliti.

Í vettvangsskýrslu lögreglunnar kemur fram að vegurinn hafi verið blautur en engin hálka merkjanleg. Það var skýjað en veður milt og vindur hægur. Við málarekstur kom einnig fram að bíl mannsins hafi verið ekið á í það minnsta 110 km hraða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert