Jóhanna: Mun reyna á ríkisstjórnarflokkana

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segist telja að það eigi að láta á það reyna hvort núverandi ríkisstjórn nái að koma fram þeim aðgerðum sem byrjað er að vinna að í stað þess að fara í kosningar. Hún segir að það muni reyna mjög á þá flokka sem mynda ríkisstjórnina á næstunni, meðal annars við fjárlögin þar sem hækka þurfi skatta og fleira. Hvort þeir nái saman á þessum erfiðu tímum. „Ég tel að það sé mjög brýnt í þeirri stöðu að verja velferðarkerfið líkt og Finnar gerðu."

Jóhanna segir að þjóðin þurfi á því að halda að ríkisstjórnin standi saman og komist í gegnum það sem þurfi að gera. „En auðvitað gæti komið upp sú staða að við næðum ekki saman um ákveðnar aðgerðir og þá getur auðvitað allt gerst," sagði Jóhanna í viðtali á morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Jóhanna segir að séð verði til þess að nægir peningar verði til í atvinnuleysistryggingasjóð til þess að greiða út bætur. Hins vegar ef atvinnuleysi fer upp í 10% líkt og Seðlabankinn spáir í Peningamálum þá verði að grípa til ráðstafana.

Hún segir að eitt það ljótasta sem hún hafi séð frá því bankakreppan skall á sé sú mismunun sem komið hefur í ljós í meðal annars Kaupþingi þar sem skuldir starfsmanna voru þurrkaðar út. Það verði að koma í veg fyrir að slík mismunun eigi sér stað.

Jóhanna segir afar mikilvægt að kjósa bankaráð og bankastjóra sem fyrst og að störf bankastjóra verði auglýst sem og annarra stjórnenda í bönkunum. Það verði að gera slíkt til þess að endurvekja traust á bankakerfinu.

Jóhanna segir erfitt að frysta verðtrygginguna á lánum eða binda verðtrygginguna við ákveðið verðbólgustig sem var fyrir hrundið enda myndi slíkt myndi þurrka út allt eigið fé Íbúðalánasjóðs á tveimur mánuðum. Það hefði afgerandi áhrif á lífeyrissjóðina og getu þeirra til þess að standa við skuldbindingar sínar. Nú sé frekar verið að horfa til ákveðinnar greiðslumiðlunar sem kemur í veg fyrir misgengi afborgana lána og launa. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert