Hvítabjörninn reyndist rígfullorðinn

Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði í sumar
Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði í sumar mbl.is

Hvítabjörninn sem felldur var á Þverárfjalli í sumar var rígfullorðinn, kominn á 22. aldursár.

Hann var því kominn í hóp allra elstu hvítabjarna í stofninum sem ekki verða eldri en 20-25 ára. Birnan, sem felld var skömmu síðar við Hraun, var einnig komin af léttasta skeiði, annaðhvort 12 eða 13 ára.

Lokið er á Tilraunastöðinni á Keldum fyrstu athugunum á hvítabjörnunum sem syntu til landsins á Skaga í júní sl. Athuganirnar eru gerðar fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands. Karl Skírnisson dýrafræðingur útbjó þunnsneiðar af tönnum dýranna til að telja í þeim árhringi og ráða í lífssögu einstaklinganna.

Björninn var ennþá frjór þegar hann var felldur. Fengitíðin í stofninum er í apríl og maí og var því nýliðin þegar dýrið synti til lands. Skagabirnan er talin hafa átt afkvæmi 3 sinnum og alltaf náð að ala húna sína upp. Líkur eru á að húnn eða húnar úr síðasta gotinu hafi orðið sjálfstæðir nokkrum mánuðum áður en birnan lagði í sundferðina til Íslands. Birnan var örmagna og að dauða komin þegar hún náði landi við Hraun.

Einungis björninn reyndist vera smitaður af tríkínum, sem smitast milli spendýra með hráu kjöti úr smituðum dýrum. Tríkínur geta lifað í mönnum og valdið kvalarfullum sjúkdómi. Sníkjudýrið er ekki á Íslandi og nýtur landið sérstöðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert