Vegið ómaklega að ráðherrum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vill að ríkisstjórnin sættist við þjóð sína og láti Björgvin G. Sigurðsson og Árna M. Mathiesen víkja vegna bankahrunsins en forystumenn ríkisstjórnarinnar tóku illa í það.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir að forseti ASÍ eigi ekki að láta uppi skoðanir á því hvernig ríkisstjórnin sé samsett frekar en ríkisstjórnin skipti sér af því hvernig skipað sé til sætis hjá Alþýðusambandinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að vegið sé ómaklega að Björgvin G. Sigurðssyni og engin rök verið færð fyrir því hvað hann eigi að hafa gert af sér og hvar hann hafi sofið á verðinum.

Ingibjörg Sólrún segir það liggja fyrir að Björgvin hafi verið óupplýstur um stöðu Icesave reikninganna og forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi staðfest það.  Geir segir að það sama eigi við um Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra.

En þá vaknar sú spurning hvort forstjóri Fjármálaeftirlitsins eigi þá ekki að víkja. Ingibjörg Sólrún segir að það verði að leiða málið til lykta áður en mönnum verður vikið úr starfi. Alþingi sé að ganga frá því að skipa sérstaka rannsóknarnefnd um málið. Það eigi ekki að dæma menn áður en sú rannsókn hafi farið fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina